Nemendur njóta kyrrðar í Engidal
„Kyrrðarathvarfið er hugsað fyrir nemendur sem eiga erfitt með einbeitingu í venjulegum verkefnatímum og vilja sinna náminu í rólegu umhverfi,” segir Arnar Sigurbjörnsson, áfangastjóri við Menntaskólann á Egilsstöðum, en þar var nýlega formleg vígsla á kyrrðarstofu sem hlaut nafnið Engidalur.Um er að ræða lítið og huggulegt herbergi sem er staðsett miðsvæðis í kennslubyggingu skólans þar sem nemendur geta setið við skólaborð, í sófa eða á grjónapúðum á gólfinu.
„Forsagan er sú að á síðasta ári ákvað nemendaþjónusta skólans að taka gamla og sjúskaða kaffistofu kennara í gegn með það að markmiði að búa til kósý- og kyrrðarathvarf þar sem nemendur gætu kúplað sig út úr daglegu amstri um stund. Nemendur í listnámi voru fengnir til að mála listaverk á veggi rýmisins til að skapa rólega og vinalega stemmingu.
Nemendur geta óskað eftir því í verkefnatímum að vinna í kyrrðarherberginu í stað þess í verkefnastofu. Ekki er kennari með yfirsetu í herberginu en þó er litið til með því að nemendur séu að sinna náminu og virði umgengnisreglur herbergisins. Til að herbergið þjóni tilgangi sínum þarf stemmningin að vera þannig að allir finni sig velkomna þar inni, ekki bara tilteknir nemendur eða hópar. Einnig þarf að fylgjast með því að umgengni sé góð og að herbergið sé raunverulegt kyrrðarathvarf en ekki óróarými. Ef það tekst þá er góður kostur fyrir nemendur sem þurfa ró og frið að geta leitað í athvarfið,” segir Arnar.
Bóas Jakobsson sigraði nafnasamkeppnina
Haldin var nafnasamkeppni í tengslum við vígsluna. „Hér í skólanum ríkir hefð fyrir austfirskum örnefnum á stofuheitum. Margar góðar tillögur bárust en það nafn sem þótti hljóma best og fanga tilgang stofunnar með hvað skýrustum hætti var nafnið Engidalur sem Bóas Jakobsson, nemandi við skólann, sendi inn. Hann er vanur að smala þann dal, sem liggur í nágrenni Borgarfjarðar, þveran og endilangan og getur vottað um friðsældina sem þar ríkir. Nú fara nemendur sem sagt í Engidal til að njóta kyrrðar í verkefnatímum.”