Ofnarnir á fullu í þrjár vikur við að baka jólabrauð

Það er nóg að gera hjá bakaríinu Sesam á Reyðarfirði í aðdraganda jóla. Bökunarofnarnir ganga þar nær samfleytt vikum saman við að baka kökur og tertur sem Austfirðingar gæða sér á um jólin.

„Þegar við byrjum á jólakökunum eru ofnarnir hjá okkur á fullu í þrjár vikur. Við gerum níu gerðir af smákökum, 3 tegundir af lagtertum, piparkökuhús og fleira,“ segir Eyjólfur Hafsteinsson, bakari hjá Sesam, í síðasta þætti Að austan á sjónvarpsstöðinni N4.

Eyjólfur kennir þar áhorfendum að baka mömmukökur sem hann segir lítið mál. „Ég man að mamma mín og frænkur bökuðu heila viku og það var ekkert mál fyrir þær. Ég held að í þjóðfélaginu í dag höfum við ekki tíma og miklum fyrir okkur hlutina því við höldum að þeir taki allan daginn.

Ef maður skipuleggur sig, tekur hráefnið til daginn áður þá tekur 10-15 mínútur að gera deigið og 1-2 tíma að baka allt. Þá er maður búinn á hálfum degi.“

Líkt og margar aðrir Íslendingar á Eyjólfur ljúfar minningar úr mömmukökugerð af æskuheimili sínu. „Ég man að þegar ég var krakki var þetta aðal smákakan fyrir jólin. Þetta var eina kakan þar sem maður fékk að vera með og gera eitthvað. Maður gat lagt kökurnar saman og svo sleikt restina af kreminu upp úr pottinum. Þetta er kaka sem stendur alltaf fyrir sínu og selst vel.“

Hann segir hráefnið, einkum íslenskt smjör, það mikilvægasta í kökubakstrinum. „Íslenska smjörið er ómissandi, þú finnur alltaf bragðið af því.“

Eyjólfur viðurkennir þó að hann baki ekki mikið heima hjá sér fyrir jólin. „Er þetta ekki eins og með smiðina sem aldrei gera við heima hjá sér? Þegar vertíðin hér í Sesam er búin vil ég njóta þess sem konan mín gerir heima. Hún er mikið jólabarn og bakar mikið. Hún er miklu betri bakari heima en nokkurn tíman ég.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.