Óttast að hinn hefðbundni útsaumur hverfi

Á Minjasafni Austurlands stendur yfir sýningin Festum þráðinn með útsaumsverkum fimm kvenna af Austurlandi og fimm frá Vesterålen í Noregi. Verkefnisstjórinn segir nauðsynlegt að vekja athygli á útsauminum til að halda honum á lofti.


„Hinn tímafreki, fíngerði, hefðbundni útsaumur er að hverfa. Það eru aðeins þeir sem eldri eru sem hafa þekkingu og þolinmæði til að stunda slíka handavinnu,“ sagði Ingrid Larssen við opnun sýningarinnar.

Hugmyndin kviknaði fyrir ári síðan þegar Ingrid fór að hugsa út í hvernig æskuheimil hennar hefði verið skreytt. „Það var glaðlegt, allur litaskalinn var notaður. Sófinn var fullur af púðum, borðin voru skreytt með nýstraujuðum dúkum og á veggnum hékk klukkustrengur. Allt fallega útsaumað.“

Staðan er önnur í dag. „Innréttingar eru hvítar, allt er á sínum stað, já, maður veltur næstum fyrir sér hvort einhver sé á staðnum. Enginn hefur tíma til að strauja dúkinn hennar ömmu. Það er ekki bara dúkurinn sem er gleymdur, heldur líka sögurnar á bak við hann. Hvað gerðist þegar dúkurinn var saumaður, þegar hann var lagaður á borð, hver kom í heimsókn og hvað var talað um? Stoltið yfir því að eiga eitthvað eftir ömmu.“

Ingrid lagðist því í rannsókn á hvað væri líkt og hvað ólíkt með útsaumshefðum og aðferðum á landssvæðunum tveimur auk þess að varðveita arfleiðina. Til þess tók hún viðtöl við konurnar tíu sem allar hafa sameiginlegt að hafa stundað útsaum frá unga aldri.

Ingrid þekkir vel til á Austurlandi því hún kom fyrst hingað árið 2005. Síðan hefur ferðunum fjölgað og í október dvaldi hún á Vopnafirði þar sem hún vann verkefni sem tengist hinum fræga álfkonudúk frá Burstarfelli.

Sýningin stendur til 22. desember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.