Piparsveinablokkin á Eskifirði fær andlitslyftingu

Stefnt er að því að umfangsmiklum viðhaldsframkvæmdum á fjölbýlishúsinu að Bleiksárhlíð 32 á Eskifirði ljúki að mestu í mánuðinum. Blokkin er af heimamönnum þekkt sem „Piparsveinablokkin.“

Fjölbýlishúsið, sem byggt var árið 1977, hlaut nafngiftina því fyrstu íbúarnir voru allir einhleypir karlmenn. Húsið þótti nokkuð nýstárlegt á sínum tíma, sérstaklega vegna þaksins.

Í sumar hafa staðið yfir umfangsmikið viðhald sem einkum snýr að þakinu. Meðal annars hefur allt burðarkerfi þess verið endurnýjað ásamt einangrun, skipt um þakglugga og ný klæðning lögð.

Ráðist var í framkvæmdirnar með milliumgöngu Eignaumsjónar. Í frétt á vef fyrirtækisins er haft eftir formanni húsfélagsins, Sindra Svavarssyni, að þrátt fyrir 40 ára búsetu í blokkinni og marga húsfélagsfundi hafi aldrei náðst sátt eða almennilegar ákvarðanir um viðhald fyrr en húsfélagið samdi við Eignaumsjón.

Fyrirtækið hafi veitt aðstoð við að taka erfiðar og dýrar ákvarðanir um viðhaldið með þekkingu á fjöleignarhúsum. „Sú þekking er í raun forsenda þess að komast í gegnum svona verkefni,“ er haft eftir Sindra.

Hann segir að framkvæmdirnar séu löngu tímabærar og furðar sig á að fremri hluti þaksins, sem hallar mest, hafi ekki fokið í miklum vindi. „Þar var bara ekkert lengur sem hélt klæðningunni við steininn því þetta var allt orðið svo rotið.“

Eftirlitsaðili með viðhaldsvinnunni er Steindór Stefánsson og fyrirtækið Og synir ehf. sér um framkvæmdir. Þeir voru ráðið í verkið í framhaldi af tilboði sem samþykkt var á aðalfundi húsfélagsins í vor. Forsendurnar fyrir viðhaldsvinnunni voru samþykktar á húsfundi í félaginu í ágúst 2018. Byggðust þær meðal annars á undirbúningsvinnu stjórnar húsfélagsins með starfsfólki Eflu verkfræðistofu á Reyðarfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.