Rafræn námskeið fyrir austfirska gestgjafa

Austurbrú hefur hleypt af stokkunum tveimur nýjum rafrænum námskeiðum sem ætlað er að mæta fræðsluþörf ferðaþjónustunnar á Austurlandi og auka gæði hennar. Þetta eru umfangsmestu námskeiðin af þessu tagi sem hönnuð hafa verið og framleidd innan Austurbrúar.

Austurbrú hefur áður fengist við rafræna námsgagnagerð en þetta eru óumdeilanlega þau metnaðarfyllstu sem ráðist hefur verið í að gera. Fjöldi fólks kom að verkinu: Nokkrir handritshöfundar, grafískur hönnuður, kvikmyndagerðarfólk, leikarar og fleiri. Um er að ræða tvö námskeið sem tengjast innbyrðis en geta staðið sjálfstæð líka.

Annað námskeiðið ber titilinn Móttaka gesta og í því er fjallað um hugtakið gestrisni og fagmennsku í móttöku gesta. Námskeiðið er byggt á víðtækri gagnaöflun: Tekin voru viðtöl við nokkra framúrskarandi gestgjafa á Austurlandi og efni unnið úr bókum sem skrifaðar hafa verið um þjónustu og þjónustulund.

Lögð er áhersla á að námsefnið sé hagnýtt og að það komi strax að notum fyrir starfsmanninn. Efninu er miðlað í gegnum sérhannaðan hugbúnað með texta, myndum og stuttum myndskeiðum. Námsefnið er brotið upp með reynslusögum austfirskra gestgjafa og nemandi þarf að þreyta próf í lok hvers kafla.

Yfirlit yfir Austurland

Hitt námskeiðið heitir einfaldlega Austurland og í því er fjallað um fjórðunginn, einkenni náttúru og samfélags og vakin athygli á helstu afþreyingarmöguleikum. „Markmiðið er að nýr starfsmaður geti fengið smjörþefinn af því helsta sem Austurland getur boðið gestum okkar,“ segir Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

„Þarna fá nemendur yfirlit um það helsta: Áhugaverða áningarstaði, helstu menningarhátíðir og fleira. Markmiðið er ekki að allt starfsfólk í gestamóttöku verði að sjálfstæðum ferðaskipuleggjendum heldur að gestir komi ekki að tómum kofanum er þeir gefa sig á tal við austfirska gestgjafa, hvar svo sem þeir starfa.“

Hvatinn að gerð námskeiðana er verkefnið Áfangastaðurinn Austurland sem Austurbrú hefur annast framkvæmd á síðustu ár. Eitt af markmiðum þess er að auka gæði þjónustu á svæðinu og er von Austurbrúar að þessi fræðsla geti orðið liður í því. „Hluti af námsefninu fjallar einmitt um verkefnið og hvernig hugmyndafræði þess getur nýst fólki í vinnunni,“ segir Jón Knútur.

Vandasamt að smala öllum á sama staðinn á sama tíma

Stofnunin hefur um langt skeið boðið upp á þjónustunámskeið á vorin en hafa þau oft verið illa sótt: „Austurland er stórt og samgöngurnar stundum erfiðar,“ segir hann. „Það hefur alltaf verið mikil áskorun að fá fólk til að mæta á námskeið á sama tíma og sama stað. Þessi rafrænu námskeið er hins vegar hægt að taka hvenær sem starfsmanninum hentar og það ætti ekki að taka hann meira en tvær klukkustundir að ljúka þeim báðum.“

Námskeiðin henta öllu starfsfólki sem tekur á móti gestum Austurlands, t.d. á gisti- og veitingastöðum en líka í sundlaugum, sjoppum, verslunum o.s.frv. Það hentar nýliðum í starfi sérstaklega vel en það getur líka eflt reyndara starfsfólk í starfi. „Það eykur sjálfstraust starfsmanna að þekkja grundvallarlögmál gestrisni og að geta sagt frá áhugaverðum stöðum og afþreyingu á svæðinu,“ segir Jón Knútur.

Hver sem er getur keypt aðgang að námskeiðunum en fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sem eru með samstarfsamning við Austurbrú fá námskeiðin á sérstökum kjörum. Námskeiðin voru unnin með styrk frá Fræðslusjóði og eru á íslensku og ensku.

Mynd: Skjáskot af námskeiðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.