Safnar sögum fólksins um tónlistina

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, sem í næstu viku mun flytja sólóplötur sínar á fernum tónleikum á Borgarfirði eystra, hefur biðlað til aðdáenda um að senda inn sínar sögur um tónlistina hans. Jónas segist hafa gaman að heyra um hvernig fólk tengir við tónlistina.

„Í aðdraganda tónleikanna hef ég verið að hlusta á plöturnar, æfa upp lögin og fara í gegnum þessa sögu frá því 2006/7 þegar ég kom til Íslands til að kynna plöturnar. Þá hélt ég mína fyrstu alvöru tónleika í kringum Bræðsluna.

Við erum líka að vinna að safnplötu og hluti af því að horfa yfir veginn er að fá sögurnar. Fólk hefur oft komið til mín og sagt mér sögur sem tengjast tónlistinni minni og það finnst mér mjög gaman.“

Þetta segir tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson sem í gær óskaði eftir að fólk myndi senda honum sögur sem tengdust tónlistinni hans, í aðdraganda tónleikaraðarinnar Frá malbiki til milda hjartans. Á tónleikaröðinni, sem hefst á sunnudag, ætlar Jónas að taka hverja plötu sérstaklega fyrir, spila hana í heild á einu kvöldi og segja sögu hennar.

Viðbrögðin við beiðni hans um sögur hafa ekki látið á sér standa. „Ég var hissa því það streymdu strax inn sögur. Það var mjög gaman að lesa þær. Þetta er eitt af því sem gerir tónlist og sköpun svo einstaka. Maður hefur meiningu á bakvið lögin en þau öðlast sitt líf þegar þau eru gefin út og áður en maður veit af eru margir búnir að tengja sitt líf við lagið.

Fólk hefur til dæmis sagt mér tengingu sína við lagið Hamingjan er hér. Að það hafi komið á tónleika og síðan látið spila lagið í brúðkaupinu sínu. Þannig hefur það orðið hluti af þeirra lífi.

Nokkrir hafa hlustað til að hjálpa sér í gegnum erfiða tíma. Þeir hafa hlustað á ákveðnar plötur eða lög stanslaust meðan farið var í gegnum erfitt tímabil. Það hefur verið magnað að heyra.“

Senda má inn sögur í gegnum listamannssíðu Jónasar á Facebook. Jónas hefur hug á að segja einhverjar sagnanna á tónleikunum en það gerir hann ekki nema með leyfi sögumanns.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.