Sjóðnum ætlað að styrkja ungt fólk til náms

Stofnaður hefur verið styrktarsjóður Snorra Gíslasonar frá Papey sem ætlað er að styrkja ungt fólk með búsetu í Djúpavogshreppi til náms á framhaldsskólastigi.

Sjóðurinn var stofnaður af systur Snorra, Gunnþóru Gísladóttur, til minningar um bróður hennar sem lést árið 2014. Stofnframlag sjóðsins er átta milljónir króna og verður hann í umsjá og vörslu Djúpavogshrepps og í reglum hans segir að sérstaklega skuli horfa til náms sem mögulega komi samfélaginu í Djúpavogshreppi til góða.

Hver var Snorri Gíslason? Kristján Ingimarsson er formaður fræðslu-, tómstunda og jafnréttisnefndar Djúpavogs, en hann hefur í samvinnu við nefndina sérstaka stjórn yfir sjóðnum og verið falið að að útfæra reglur varðandi úthlutun.

„Snorri Gíslason fæddist í Papey árið 1915 og ólst upp í eyjunni með fjölskyldu sinni. Foreldrar Snorra voru þau Gísli Þorvarðarson og Jóhanna Gunnarsdóttir og voru systkinin níu talsins, Snorri þriðji yngstur og Gunnþóra yngst. Þegar faðir Snorra festi kaup á Papey stóðu honum tvær aðrar jarðir til boða, Bessastaðir og Viðey. Gísli valdi Papey og þykir líklegt að þar hafi fuglinn og fiskimiðin ráðið miklu, en Papey og sjórinn í kring er matarkista.

Snorri fékk fyrst að fara í land þegar hann var tíu ára og upp úr því urðu ferðirnar tíðari. Snorri var mikill hagleiksmaður og góður smiður. Smíðaði hann meðal annars rafstöð fyrir bæinn í Papey og fyrir vikið voru Papeyingar með þeim fyrstu sem fengu rafmagn. Snorri var algerlega sjálfmenntaður og lærði með því að lesa sér til og prófa sig áfram,“ segir Kristján.

Möguleg úthlutun fyrir næsta skólaár

Gunnþóra hefur búið í Kanada í mörg ár. „Hún vildi sýna bróður sínum heiður og halda minningu hans lifandi með því að stofna þennan styrktarsjóð. Ekki hefur verið ákveðið hvenær fyrsta úthlutun fer fram en sveitarstjórn samþykkti stofnskrá sjóðsins á síðasta fundi. Næsta skref er að velja fólk í úthlutunarnefnd og að því loknu er í raun ekkert því til fyrirstöðu að auglýsa eftir umsóknum. Mögulega, ef allt gengur upp, gæti því verið hægt að úthluta fyrir næsta skólaár. Samkvæmt stofnskrá skal úthlutunin tilkynnt með formlegum hætti auk þess sem við hverja úthlutun skal minnast Snorra þannig að ég á von á því að í hvert sinn sem verður úthlutað verði það gert með viðhöfn,“ segir Kristján.

Vona að styrkhafar skili sér til baka á Djúpavog

Hvaða máli telur Kristján sjóðinn skipta? „Hann getur án nokkurs vafa auðveldað ungu fólki að stunda nám og getur líka verið hvatning til þess að fara í nám yfirhöfuð. Við vitum að námslán eru bölvuð ólán hér á Íslandi og þetta gæti mögulega minnkað þörf á námslánum, þetta getur líka komið sér vel fyrir ungt fólk sem hefur ekki mikið milli handanna, og jú, þetta getur verið hvatning fyrir fólk sem ekki er mikið gefið fyrir nám að afla sér menntunar og einhver nefndi iðnnám í því sambandi. Við vonumst svo auðvitað til að þetta unga menntaða fólk skili sér til baka til Djúpavogs og að aðstæður leyfi að það geti búið hér.“

Ljósmynd: Andrés Skúlason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.