Skógarilmur af nafnspjöldunum á skógræktarráðstefnu
Nafnspjöld sem þátttakendur á fagráðstefnu skógræktarinnar, sem stendur yfir á Hallormsstað, bæði ilma og bera lykt af skóginum. Endurnýting var höfð í huga við gerð spjaldanna.„Ég fór með nálar af fjallaþin og maukaði í matvinnsluvél til að fá lykt og græna litinn. Við erum á fagráðstefnu skógræktarinnar og við vinnum í þessari lykt allt árið,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað.
Loftslagsmál eru aðalviðfangsefni ráðstefnunnar sem hófst í morgun og lýkur annað kvöld. Bergrún segist hafa haft endurnýtingu að leiðarljósi þegar hún gerði nafnspjöldin.
„Við skárum niður pizzukassa og prentuðum á spjöldin með brennsluprentara þannig við notuðum ekki blek. Þetta er líka annað árið sem við notum hálsböndin.
Það er gaman að geta nýtt hlutina vel, haft þá úr náttúrunni og þannig við getum skilað þeim í hana aftur,“ segir Bergrún.
Fagráðstefnan er haldin árlega og flakkar um landið, en hún var síðast haldin á Hallormsstað árið 2013.