Snýst um að bæta sig og láta gott af sér leiða
Félagar í Oddfellow-reglunni um allt land opna félagsheimili sín fyrir almenningi í tilefni 200 ára afmæli reglunnar á sunnudag. Tvær stúkur starfa af Austurlandi sem reglulega leggja góðum málefnum í fjórðungnum lið.„Við höfum reynt að styrkja okkar nærsamfélag. Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur notið þess og ein höfum við stutt við verkefnið Stígamót á staðinn til að halda þeirri þjónustu í nærumhverfinu,“ segir Anna Þóra Árnadóttir, formaður stúkunnar Bjarkar.
Oddfellow-stúkurnar tvær eystra voru stofnaðar þann 31. október árið 2010. Um 50 meðlimir af öllu Austurlandi eru í hvorri stúku, annars vegar Björk sem er fyrir konur, hins vegar Hrafnkeli Freysgoða sem er fyrir karlmenn. Félagsheimilið stendur við Fagradalsbraut á Egilsstöðum.
Félagar í Björk hittast tvisvar í mánuði en í Hrafnkeli Freysgoða aðra hverja viku. Þess á milli hittast félagar á samverustundum þótt ekki séu haldnir formlegir fundir.
Anna Þóra var meðal þeirra sem komu að því að koma stúkunum eystra á koppinn á sínum tíma. „Þetta er mjög uppbyggjandi starf sem hefur jákvæð áhrif á einstaklinginn. Þetta snýst um vináttu, bæta sig og láta gott af sér leiða,“ segir hún.
Alls eru Oddfellowar liðlega 4000 talsins hérlendis í 46 stúkum karla og kvenna. Reglan og stúkur hennar styðja reglulega við góð málefni og hefur reglan lagt 148 til ýmissa verkefna hérlendis á síðustu tólf mánuðum.
Félagsheimilið að Fagradalsbraut 25 á Egilsstöðum verður opið milli klukkan 13 og 17 á sunnudag, 1. september. Þar verða kynningar á reglunni, líknar- og mannúðarstarfi hennar og boðið upp á kaffi og meðlæti.
„Það verður hægt að skoða aðstöðuna. Starfið hefur oft þótt lokað og læst en það er verið að opna húsin til að sýna að það eru engin leyndarmál,“ segir Anna Þóra.