Sóknarpresturinn fékk fyrsta eintakið af nýrri bók um Hofsá

Útgáfa nýrrar bókar um laxveiðiárnar í Vopnafirði var kynnt í afmælisfagnaði Veiðiklúbbsins Strengs sem haldinn var í Reykjavík á fimmtudagskvöld. Sóknarprestur Hofsprestakalls fékk fyrsta eintakið af bókinni.

„Fyrir fimm árum réðst Strengur í útgáfu bókaflokks um árnar í Vopnafirði. Fyrsta bókin um Selá kom út 2017 og nú er komin út sú næsta, sem er um Hofsá,“ sagði Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs, í ræðu sinni í afmælinu.

Bókin er sú sjötta í ritröð Litrófs um íslenskar laxveiðiár, en höfundar eru Guðmundur Guðjónsson, sem sér um ritstjórn ritaðs efnis, og Einar Falur Ingólfsson, myndlistarmaður, ljósmyndari og blaðamaður, sem tekur allar nýrri myndir. Í bókinni er í máli og myndum farið yfir um margt óvenjulega sögu Hofsár sem laxveiðiár og hliðarár hennar, Sunnudalsá.

Einar Falur kynnti bókina og afhenti fyrsta eintakið Þuríði Björg Wiium Árnadóttur, sóknarpresti í Hofsprestakalli í Vopnafirði.

Um 70 gestir fögnuðu tímamótunum hjá veiðiklúbbnum Streng og vopnfirski tónlistar- og stangveiðimaðurinn Pálmi Gunnarsson lék nokkur lög með félögum sínum Gunnlaugi Briem á trommum og Þóri Úlfarssyni á hljómborði.

Þór Sigfússon, sem var veislustjóri, minntist fyrstu skrefanna hjá Streng í kynningarorðum sínum og taldi að árið 1959, fyrir 60 árum, hefðu fæstir stofnenda veiðiklúbbsins getað ímyndað sér að félagið ætti eftir að verða partur af mjög merkilegri sögu um viðhald og ræktun laxastofna og eflingu veiðimenningar á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Streng.

Þörf á að styrkja stofninn

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs og veiðileiðsögumaður, minntist einnig upphafsáranna og hvernig félagar klúbbsins hefðu fljótt komið sér saman um samþykktir og starfsreglur, svo sem að hittast á fimmtudagskvöldum, því þá var engin sjónvarpsdagskrá til að trufla mannskapinn. Hann fór yfir söguna og hvernig umfang og starfsemin hefur vaxið í tímans rás. Meðal annars ræddi hann aðkomu Jims Ratcliffe að Streng árið 2017.

„Aðkoma hans byggist á einlægum áhuga á verndun og viðkomu íslenska laxins og að hjálpa til við vöxt hans,“ sagði Gísli, en laxastofninum hefur víða hrakað. Sem dæmi nefndi hann að nú heimtist úr hafi einn lax af hverjum hundrað í stað þriggja árið 1970. „Það þarf því þrisvar sinnum fleiri gönguseiði til hafs í dag til að fá sömu veiði og fyrir 50 árum.“

Vonar að andúð í garð erlendrar eignar hamli ekki starfseminni

Gísli fór yfir uppbyggingarstarf síðustu ára, en með fulltingi Ratcliffe hefur verið ráðist í hundruð milljóna króna vísindaverkefni í Vopnafirði með það markmið að auka laxagengd. Þá væru í gangi fleiri verkefni, svo sem gróðursetning trjáplantna við árnar í Vopnafirði og hrognagröftur af áður óþekktu umfangi í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. „Í byrjun næsta árs, eða þann 23. janúar, mun Strengur líka gangast fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík um stöðu villta Atlantshafslaxastofnsins.“

Kvaðst Gísli vona að andúð sem alið hafi verið á varðandi eignarhald útlendinga á bújörðum hér yrði ekki til þess að þrengt yrði að starfsemi Strengs og uppbyggingunni sem þegar væri hafin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.