Sterk staða Vopnafjarðar á Alþingi

Vopnfirðingar eru sterkir á Alþingi þessa vikuna með tvo þingmenn og tvo aðra í starfsliði þingflokka. Þeir dreifast á þrjá flokka.

„Það er gott að staður sem er svona langt frá höfuðstaðnum hafi fulltrúa á svæðinu,“ segir Þórunn Egilsdóttir, sem situr á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn.

Bjartur Aðalbjörnsson tók á mánudag sæti fyrir Samfylkinguna sem varaþingmaður í fjarveru Loga Einarssonar. Að auki starfar Tómas Guðjónsson sem upplýsingafulltrúi og aðstoðarmaður þingflokks Samfylkingarinnar og Kári Gautason er framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Mynd sem Þórunn tók og birti á Facebook-síðu sinni á mánudag hefur vakið nokkra athygli og viðbrögð meðal Vopnfirðinga. „Ég hóaði í strákana og við létum taka af okkur mynd. Hún hefur fengið athygli enda fylgjast Vopnfirðingar vel með sínu fólki.“

Þórunn er aldursforseti hópsins og náði því að kenna strákunum meðan hún kenndi í Grunnskóla Vopnafjarðar. „Þeir hljóta að hafa haldið mikið upp á mig fyrst þeir eltu mig hingað,“ segir Þórunn og hlær.

Aðspurð hvort ekki hafi farið eitthvað úrskeiðis í kennslunni hjá henni fyrst strákarnir fóru í aðra flokka svarar hún: „Það sýnir hvað við Vopnfirðingar erum víðsýn. Við þurfum að dreifa kröftum okkar til að hafa áhrif. Þeir eru allir indælisdrengir.“

Hún segir hópinn ekki hafa lagt upp með nein ákveðin stefnumál fyrir Vopnafjörð í vikunni. „Ekki sem hópur, við erum ekki saman í flokki þótt við berum öll hag Vopnafjarðar fyrir brjósti.“

Þórunn sat um tíma í sæti forseta Alþingis á þingfundi í dag en var þó ekki þar þegar Bjartur flutti jómfrúarræðu sína í dag. Hún fylgdist hins vegar með henni. „Hann stóð sig með stakri prýði.“

Frá vinstri: Tómas, Kári, Þórunn og Bjartur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.