„Frábært að finna fyrir áhuga fólks“

Jólatónleikarnir „Jólin til þín“ verða haldnir næstu þrjú kvöld á þremur stöðum á Austurlandi. Pálmi Gunnarsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Unnur Birna Björnsdóttir koma fram á tónleikunum og munu ásamt hljómsveit. Jón Hilmar Kárason tónlistarmaður, einn aðstandanda tónleikanna, segir hópinn mjög spenntan að spila fyrir Austfirðinga.

 
„Það er búin að vera lengi hefð fyrir jólatónleikum í Neskaupstað en svo var Daníel Arason með árlega tónleika í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði sem hét Jólafriður. Svo í fyrra tókum við Guðjón Birgir hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands, eiginlega við  keflinu af honum. Þá urðu til tónleikarnir Jólin til þín,“ segir Jón Hilmar.

Hann segir að þeir hafi farið með tónleikana hringinn í kringum landið í fyrra en í ár verður þetta með öðru sniði. „Nú ætlum við bara að taka Austurland,“ segir Jón Hilmar

Eins og fram hefur komið verða tónleikarnir á Fáskrúðsfirði, í Neskaupstað og á Vopnafirði. Hann segir að ýmsir söngvarar og tónlistarmenn hafi komið fram á tónleikunum undanfarin ár. „Guðrún Gunnars verður okkur þarna. Hún á eftir að heilla alla upp úr skónum eins og henni er lagið,“ segir Jón Hilmar.

Pálmi Gunnarsson verður með þeim á sviðinu í fyrsta skipti. „Við reyndum að fá hann einu sinni áður en þá fékk karlinn lungnabólgu og gat auðvitað ekki verið með. Núna náðum við honum heilum,“ segir Jón Hilmar og glottir.

Hann bætir við. „Fyrir utan að eiga mörg af bestu jólalögunum okkar þá er Pálmi er frábær bassaleikari og verður flott að hafa hann í bandinu. Svo má ekki gleyma henni Unni Birnu. Hún var með okkur í fyrra og ætlar að koma aftur. Hún er frábær söngkona og fiðluleikari. Hún verður líka í bandinu.“ Auk þeirra Pálma og Unnar Birnu skipa Jón Hilmar, Birgir Þórisson og Birgir Baldursson hljómsveitina.

Jón Hilmar segir alltaf ótrúlega skemmtilegt að halda jólatónleika. Tónleikastaðirnir sem urðu fyrir valinu í var voru ekki valdir af handahófi. Þegar við fórum um landið í fyrra voru þetta staðirnir þar sem var fullt hús. Það er svo frábært þegar maður heldur stóra tónleika að finna fyrir því að fólk langar að mæta og njóta með okkur. Við fundum einmitt svo fyrir því að á þessum stöðum, var frábær stemmning. Það er því mikil tilhlökkun í hópnum að koma og spila þarna aftur,“ segir Jón Hilmar að lokum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.