„Það er alveg yndislegt að fá gesti“

Vöfflukaffi er alla miðvikudaga í Tryggvabúð, félagsmiðstöð eldri borgara á Djúpavogi. Kaffið er öllum opið og segir atvinnu- og menningarmálafulltrúi sveitarfélagsins kjörið að enda vinnudaginn á notalegri samveru sem brúar kynslóðabilið.


Vöfflukaffið í Tryggvabúð hefur verið á sínum stað allt frá því aðstaðan var flutt þangað síðla árs 2014. Allir eru velkomnir í kaffið sem er á milli klukkan 15:00 og 16:00. Aðgangseyri er haldið í lágmarki, eða aðeins 500 krónum.

„Sumir halda kannski að vöfflukaffið sé aðeins fyrir eldri borgara, en þangað eru allir velkomnir. Á aðventunni er svo leikskólabörnunum boðið sérstaklega, en þá er þeim skipt í fjóra hópa sem hver um sig fer einu sinni og gæðir sér á vöfflum með eldri borgurum og öðrum gestum vöfflukaffisins. Forráðamenn sækja börnin svo þangað þennan eina dag og það er skemmtilegt uppbrot í skammdeginu,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps.

Greta Mjöll segir allan gang vera á því hversu vel sé mætt í kaffi. „Það er bara misjafnt, eins og gengur og gerist. Stundum er afgangur en aðra daga er ekkert eftir. Vöfflurnar eru alveg sérstaklega ljúffengar, að sjálfsögðu gerðar frá grunni og sjálf hef ég ekki smakkað þær betri. Þetta er bara ótrúlega skemmtilegur fastur samfélagsliður og þessi fallega hugmyndafræði með eldra fólkið og börnin á alltaf við, að leyfa þeim að kynnast og vinna saman. Ég held að það gleðji báða hópa. Þarna myndast alveg sérstaklega þægileg og afslöppuð stemmning og þetta er kjörin leið til að enda góðan vinnudag.“

„Finnst ég hafa eldað nógu mikinn mat í gegnum tíðina“
Erla Ingimundardóttir er ein þeirra sem alltaf sækir vöfflukaffið. Hún segir eldri borgara á Djúpavogi hittast þrisvar í viku í Tryggvabúð og þá daga sé heitur matur í boði. „Við erum bara tvær sem nýtum okkur þann kost. Mér finnst gott að geta fengið mér að borða þarna því mér finnst ég hafa eldað nógu mikinn mat gegnum tíðina,“ segir hún og hlær.

Erla fagnaði 82 ára afmæli sínu í síðustu viku. „Mér þykir vöfflukaffið mjög skemmtilegt og alveg frábært að gefast ekki upp, því þó svo að komi skipti þar sem fáir mæta koma kannski margir næst. Alltaf er bakað nóg og við segjum bara; já, já, það verður annar í vöfflum á morgun. Það er alveg yndislegt að fá gesti og ekki síst börnin, en sjálf eigum við barnabörn og barnabarnabörn á staðnum. Sumir koma oftar en aðrir og þó nokkrir mjög reglulega, en það er eins og maður veit, fólk sem er að vinna getur ekki alltaf fengið sig laust.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.