„Það er auðvitað hundfúlt að missa af blótinu”
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. jan 2019 13:35 • Uppfært 25. jan 2019 13:35
„Þetta er auðvitað úrslitaþáttur vetrarins og maður veit ekki með framtíð þáttanna,” segir Hákon Ásgrímsson, einn þeirra sem skipar lið Fjarðabyggðar sem mætir liði Kópavogs í beinni útsendingu á RÚV í kvöld.
Auk Hákons skipa þau Birgir Jónsson og Heiða Dögg Liljudóttur lið Fjarðabyggðar. Hákon segir að hart verði barist í kvöld.
„Það er alltaf gaman að keppa í Útsvarinu. Kópavogur er með flott lið sem við mættum að hluta til fyrir tveimur árum. Þá gekk reyndar vel hjá okkur, en þau hafa staðið sig mjög vel í vetur þannig að þetta verður hörku keppni,” segir Hákon.
Liðið hittist að venju seinnipartinn í dag til þess að hita upp og stilla saman strengi. „Tökum tökum stutta æfingu þar sem við svörum spurninugum og æfum leikinn. Við ætlum að gera okkar allra besta í kvöld.”
Hákon þarf að fórna þorrablótinu á Reyðarfirði sem fram fer í kvöld. „Það er auðvitað hundfúlt að missa af blótinu sem er helsti menningarviðburður ársins á Reyðarfirði. Ég hins vegar náði að fara á generalprufuna í gær og get fullyrt það að þeir sem mæta í kvöld verða ekki sviknir af annálnum.”