„Þau hjónakornin búa hérna hinu megin í dalnum“

„Fyrsta helgin í aðventu er alltaf fjörug hjá okkur, reyndar óvenju mikið þetta árið,“ segir Skúli Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.


Aðventuhátíðin hefst strax í hádeginu á laugardag með jólahlaðborði í Klausturkaffi og að því búnu rennir rithöfundalestin í hlað. Á laugardagskvöldið verður Svavar Knútur með stofutónleika og býður Klausturkaffi upp á villigæsasúpu og eftirrétti á undan. Á sunnudaginn mæta síðan gaulálfar og sagnálfar með söng og glens um Grýlu og hyski hennar á árlegri Grýlugleði en að henni verður jólakökuhlaðborð.

„Þetta er líklega sextánda Grýlugleðin okkar þar sem við reynum að hræða börnin hæfilega mikið, en það eru hæg heimatökin, en þau hjónakornin búa hérna hinu megin í dalnum samkvæmt gamla kvæðinu eftir Stefán Ólafsson.

Það er orðin hefð hjá sumum að gera sér glaðan dag með okkur þessa helgi og svo bætast alltaf nýjir við, en sumir eru svo heppnir að hitta á uppáhalds rithöfundana sína í lestinni. Ekki er verra að gestir geta gætt sér á gómsætum veitingum,“ segir Skúli sem segir veðurspána góða.

„Hún er bara stórgóð, logn og froststillur, bara spurning hvað verður mikið af þessu hvíta.“ Hér má finna nánari upplýsingar um viðburði helgarinnar. 

Rithöfundalestin á ferð um Austurland

Rithöfundalestin verður á ferð á Austurlandi um helgina og er fyrsti viðkomustaður í Kaupvangi á Vopnafirði í kvöld klukkan 20:30.

Aðrir viðkomustaðir eru þessir;

  • Skriðuklaustur í Fljótsdal – laugardaginn klukkan 14:00
  • Skaftfell á Seyðisfirði – laugardaginn klukkan 20:30
  • Safnahúsið í Neskaupstað – sunnudaginn klukkan 14:00


Í lestinni verða austfirskir höfundar frá Bókstaf, þau Skúli Júlíusson, Íris Randversdóttir, Hrönn Reynisdóttir og Pétur Behrens. Aðrir höfundar eru þau Pétur Gunnarsson, Yrsa Sigurðardóttir, Auður Ava Ólafsdóttir, Magnús Sigurðsson og Inga Mekkin Beck.


Mynd af þér í Skaftfelli

Sýningin Mynd af þér eftir Sigurð Atla Sigurðsson opnar í Skaftfelli á Seyðisfirði á laugardaginn klukkan 16:00. Sýningarstjóri Gavin Morrison. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Jólatónleikar með Esther Jökuls

Esther Jökuls verður með jólatónleika ásamt hljómsveit sinni í Tónleikamiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudagskvöldið klukkan 20:00 þar sem þau spila og syngja jólalög í fallegum jazzútsetningum. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Útgáfuteiti í Bókakaffi

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi verða með útgáfuteiti á bókinni Með austangjólunni eftir Sigurð Óskar Pétursson á sunnudaginn klukkan 15:00 í Bókakaffi í Fellabæ. Fjölbreytt dagskrá með upplestri og tónlistarflutningi.

Aðventutónleikar Kammerkórs Egilsstaðakirkju

Á sunnudaginn verður Kammerkór Egilsstaðakirkju með jóla- og aðventutónleika í kirkjunni undir stjórn Torvald Gjerde. Á efnisskránni er að finna ýmsar aðventu- og jólaperlur. Nánar má lesa um viðburðinn hér.


Jólaljósin tendruð

Jólaljósin verða tendruð víðsvegar um Austurland um helgina, en samantekt um tíma- og staðsetningar má sjá hér.

Jón Hilmar í Stúkunni

Trúbadorinn Jón Hilmar Kárason verður í Stúkunni í Egilsbúð annað kvöld og skemmtir gestum. Sjá nánar hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.