„Þetta átti að vera löng og ljót viðureign með einum skelli í lokin”
Í myndbandi sem hljómsveitin Hatari hefur sent frá sér má í baksýn sjá tvo glímukappa takast á í íslenskri glímu. Annar þeirra er Grettisbeltishafinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson frá UÍA.Hljómsveitin Hatari er komin áfram í úrsslitakeppni Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins þar sem keppt verður um það hver verður fulltrúi Íslands í Eurovison sem haldin verður í Ísrael í maí. Hljómsveitin hefur vakið mikla athygli um allan heim, þá einnig í Ísrael, en sjálfir líta Hatarar á þátttöku sína sem pólitískan gjörning.
Á fréttavefnum Vísi segir að glímuviðureigin sé þannig til komin að meðlimir Hatara hafi greint frá því í viðtali að réttast væri að skora á Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael í glímu. Sögðu þeir að ef þeir myndu tapa eignaðist Ísrael full yfirráð yfir Vestmannaeyjum en ef Hatari vinnur þá fái þeir ótvírætt umboð til að stofna einskonar BDSM-fríríki innan ísraelska ríkisins. Í stað þess að þiggja boð um viðtal hjá ísraelskri sjónvarpsstöð ákváðu þeir að taka upp stutt myndband til Ísraels. Þeir leituðu svo til Glímusambandsins eftir einstaklingum til að leika í myndbandinu
.
Væri til í að fara með til Ísrael
„Ég hafði gaman af því að taka þátt í þessu, þetta eru fínustu drengir,” segir Ásmundur. „Þetta var ekki fagurfræðilega góð glíma, enda átti þetta að vera löng og ljót viðureign með einum skelli í lokin, sem átti að endurspegla það ef að Hataramenn kepptu við Benjamin Netanyahu.”
Sjálfur segist Ásmundur ekki hafa sérstaka skoðun á þátttöku Hatara í keppninni, en segist þó vonast til þess að þeir taki þátt og komi sínum skilaboðum áleiðis. Aðspurður hvort hann endi bara ekki sjálfur á sviðinu í Ísrael segir hann; „Það hefur nú ekki komið til tals ennþá, en ég væri alveg til.”