„Þetta er alveg frábært hópefli”

Söngleikurinn Gauragangur, í uppsetningu 9. bekkjar Nesskóla í Neskaupstað, verður frumsýndur í Egilsbúð í kvöld. Aðeins verða þrjár sýningar en seinni tvær verða báðar á morgun, fimmtudag.


Verkið er eftir Ólaf Hauk Símonarson en það er Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir sem leikstýrir nemendum Nesskóla. Í lýsingu á verkinu segir að Gauragangur sé drepfyndin og háalvarleg þroskasaga Orms Óðissonar, einnar skemmtilegust andhetju Íslands. Sagan eigi erindi til allra sem nenni að hugsa, hlæja, reiðast, fíflast og kyssast.

Fjölmennur hópur
„Við erum með marga nemendur og því þurfti að finna verk miðað við það og Gauragangur varð fyrir valinu,” segir Þórfríður Soffía, sem bætir því við að sagan sé oft lesin á unglingastigi grunnskóla.

Þórfríður Soffía segir að verkið sé nokkuð flókið, bæði séu hraðar skiptingar og mikið um að vera á sviðinu en auk þess sé komið inn á málefni sem ungmenni á þessum aldri séu ekki endilega farin að huga að. „Ferlið hefur tekið svolítið á, en það getur verið erfitt og flókið fyrir krakka í 9. bekk að stíga inn í heim sem þau kannski þekkja ekki ennþá, það hefur verið áskorun fyrir þau.”


Hluti af fjáröflun fyrir skólaferðalag
Það er árviss viðburður hjá 9. bekk Nesskóla að setja upp leikskýningu, en hún er hluti af fjáröflun bekkjarins fyrir skólaferðalag sem farið er í undir vor. Aðstandendur nemenda leggja alltaf hönd á plóg í uppsetningarferlinu.

„Aðkoma foreldra auðveldar uppsetninguna alveg gífurlega, en þeir hjálpa til við sviðsmynd og hvað eina sem þarf, þetta er alveg frábært hópefli og einnig skemmtilegt að eftir þetta eiga krakkarnir samt eitt ár eftir í skólanum áður en þau halda hvert í sína áttina,” segir Þórfríður Soffía.


Uppskeran er alltaf þess virði
Aðeins eru nokkrar klukkustundir í frumsýningu. „Það var generalprufa í gær þar sem ég sat bara út í sal og naut sýningarinnar. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt ferli, en krakkarnir eru alveg ofsalega þreyttir, en flestir eru einnig í íþróttum þannig að þetta hefur verið mikið púsl undanfarnar vikur. Uppskeran er þó þess virði, hún er það alltaf.”

Ljósmynd: Sunna Björg Guðnadóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.