„Þeir öskra og svo syng ég nokkur lög“

Tónleikar undir merkjum Skonrokks verða haldnir í Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld. Einn af söngvurum hópsins er Borgfirðingurinn Magni Ásgeirsson sem lýsir hópnum sem saumaklúbbi miðaldra karlmanna.

„Hópurinn varð til í Vestmanneyjum fyrir nokkrum árum þegar halda átti rokktónleika fyrir áhafnirnar á bátunum um sjómannadagshelgina. Það var svo gaman að hópurinn öðlaðist eigið líf og heldur 1-2 tónleika á ári,“ segir Magni.

Venjan er að spilað sé á föstudeginum um sjómannadagshelgina í Eyjum. Í ár spilar hópurinn einnig í Valaskjálf og Akureyri annað kvöld.

Skonrokk hópurinn samanstendur annars vegar af hljómsveitinni Tyrkja-Guddu sem er sambland meðlima úr Strax, Dúndurfréttum og Landi og sonum, hins vegar söngvurum sem í kvöld verða auk Magna Birgir Haraldsson, Pétur Örn Guðmundsson og Stefán Jakobsson.

„Ég var einhvern tíman spurður að því hverjir væru söngvararnir. Ég sagði að hinir öskruðu og svo kæmi ég og syngi nokkur lög,“ segir Magni.

Hópurinn spilar klassískt rokk frá áttunda og níunda áratugnum, frá sveitum á borð við Led Zeppelin, Kiss, Metallicu og fleirum. „Það er oft aðalhausverkurinn að rífast um hvað við eigum að spila. Einar Þór gítarleikari hætti að hlusta á nýja tónlist árið 1991 og það þýðir ekki að reyna að kenna honum neitt nýrra!“

Jólabjór, sköpunarnámskeið og guðsþjónustur

Tónleikarnir eru þó ekki eini viðburðurinn á Egilsstöðum í kvöld. Áhugafólk um matarmenningu getur til dæmis lagt leið sína á Ask þar sem jólabjór Austra verður kynntur.

Í Tónlistarmiðstöð Austurlands, Eskifirði, verður næstu tvær helgar staðið fyrir námskeið í spuna og skapandi ferli. Fyrri tíminn er á sunnudag og er ætlaður 13-25 ára. Leiðbeinandinn er Benni Hemm Hemm, tónlistarkennari á Seyðisfirði, sem fer yfir grunnþættina í sköpunarferlinu. Þátttaka er ókeypis.

Á Fáskrúðsfirði verður á sunnudag hátíðarmessa í Kolfreyjustaðarkirkju í tilefni af 140 ára afmæli kirkjunnar. Ingigerður Jónsdóttir flytur erindi um sögu hennar.

Um kvöldið verður guðþjónusta í Vallaneskirkju í tilefni af feðradeginum þar sem Sigurjón Bjarnason og Reynir Hólm Gunnarsson flytja stutt innlegg um reynslu sína af að verða og vera veður á ólíkum tímum.

Sex lið í Lego-keppni

Austfirðingar eru líka á faraldsfæti þessa helgina. Bæði karla- og kvennalið Þróttar í blaki eiga leiki um helgina og leika gegn Álftanesi.

Þá eru lið frá grunnskólunum á Brúarási, Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Seyðisfirði og Vopnafirði skráð í hina árlegu Lego-keppni sem haldin verður í Háskólabíó á morgun. Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á Facebook-síðu hennar milli 12:30 og 15:30.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.