„Töluðum um okkur eins og við værum stærsta hljómsveit heims“
Tónlistarmaðurinn Hlynur Benediktsson frá Neskaupstað hefur komið fram um 2000 sinnum á ferlinum. Ein af hans fyrstu hljómsveitum var Rufuz sem náði að gefa út tvær plötur. Upptökuferlið var með eindæmum skrautlegt.„Við föttuðum það snemma að það talar enginn um þig nema þú sjálfir. Það sást strax í auglýsingunum okkar, við töluðum um okkur eins og stærsta hljómsveit heims,“ rifjar Hlynur Ben í nýjasta þætti Norðfirðings – hlaðvarps. Þáttastjórnandi er Daníel Geir Moritz en hlaðvarpið er sent út í samstarfi við Síldarvinnsluna og Austurfrétt.
Fyrsta plata Rufuz kom út árið 2001 og bar heitið Rabbabaradrottnarinn. Platan var tekin upp í Blúskjallaranum í Neskaupstað með upptökustjóra úr Reykjavík. Í viðtalinu segir Hlynur frá því að það hafi orðið sveitinni til happs að vegurinn frá Norðfirði hafi farið í sundur vegna vatnavaxta á upptökuhelginni. Það varð til þess að upptökustjórinn komst ekki heim og hægt var að taka upp plötuna.
Felldi upptökustjórann
Henni var fylgt eftir ári síðar með plötunni Sick en upptökur hennar gengu ekki jafn vel. „Upptökustjórinn var ekki í sama góða ástandinu og árið áður. Það var mér að kenna. Ég vissi ekki að hann væri óvirkur alki og daginn fyrir upptökur bauð ég honum í próflokapartý.
Ég ætlaði ekki að fá mér glas en ég var í alvörunni það vitlaus að ég vissi ekki að ég yrði ölvaður af að borða ávextina úr bollunni!
Um kvöldið útskýri ég fyrir honum að hann sé á besta stað í heimi, að við séum á leiðinni á ball og hann komi með. Morguninn eftir vakna ég hress klukkan átta og reyni að hringja í hann en hann svarar ekki. Þegar hann hringir loks til baka biður hann mig um að bjarga sér, hann sé í húsi út í bæ. Þar með var hann fallinn.
Vikan sem seinni platan var tekin upp var hræðileg. Það var allt þyngra, honum leið ekki vel og þá verður mönnum ekki mikið úr verki en við lömdum vinnuna áfram því það var bara ákveðinn tími. Upptökurnar urðu þannig að varla var hægt að nota þær en við vildum samt gefa út því það var fallinn til kostnaður.“
Hlynur er hins vegar stoltur af Rufuz og þeir sem voru í sveitinni eru enn miklir vinir. „Mér finnst hugtakið metnaður fram yfir getu eiga vel við um Rufuz. Eftir standa óteljandi stundir með góðum vinum að gera skemmtilega hluti.“
„Sástu ekki hringinn?“
Hlynur starfar í dag sem tónlistarmaður, útvarpsmaður á Rás 2 auk þess sem hann heldur úti vefnum Garg. Hann hætti í starfi hjá Össuri fyrr á árinu til að sinna tónlistinni. Hann býr í dag á Akranesi ásamt konu sinni, Sigrúnu Þrastardóttur og þremur börnum þeirra.
„Ég kynntist henni um sumarið 2007. Ég var búinn að tala við hana heilt kvöld en þegar ég reyndi að kyssa hana sýndi hún mér trúlofunarhringinn á hendinni og spyr mér hvort ég hafi ekki séð hann. Ég spurði til baka hvort hún hefði haldið að ég væri að horfa á höndina á henni.
Ég forðaðist hana næstu mánuði. Þá var hennar tími með þáverandi unnusta að renna sitt skeið. Eftir það byrjuðum við saman og höfum verið saman síðan.“
Eftirminnilegasta stundin á sviðinu úr Egilsbúð
Hlynur hefur spilað í fjölda hljómsveita en einna þekktastur er hann fyrir að koma fram sjálfur. Í viðtalinu telur Hlynur að það séu orðin 2000 skipti síðan hann var 17 ára og fór að taka pening fyrir að spila.
Aðspurður segir hann eftirminnilegustu stundina af sviðinu vera úr Egilsbúð af útgáfutónleikum sólóplötunnar „Leiðin heim“.
„Rakel Helga, dóttir mín, söng með mér fyrsta lagið. Ég samdi það því hún spurði hvort hún fengi ekki að syngja á plötunni. Það fjallar um að vera tónlistarmaður, fara í burtu og koma heim. Síðan eru nöfnin á börnunum mínum vafin inn í textann án þess að þú takir eftir því.“