Tónleikafélag Djúpavogs komið á fullt eftir langt hlé

„Við erum farin á fullt aftur og þetta verða bara fyrstu tónleikar af mörgun,“ segir Ólafur Björnsson, meðlimur í hljómsveitinni Tónleikafélags Djúpavogs sem blæs til tónleika í Djúpavogskirkju á laugardagskvöldið.



„Tónleikafélag Djúpavogs hefur verið til síðan 2006 og er því tíu ára, en við höfum verið í pásu frá því 2011. Það er sami kjarninn í sveitinni en hópurinn er síbreytilegur eftir tónleikum og nú eru þrír nýjir meðlimir með okkur,“ segir Ólafur.

Ólafur segir gesti mega búast við fjölbreyttum og skemmtilegum tónleikum á morgun.

„Við þessir rótgrónu erum að fara töluvert út fyrir þægindarammann – en við vorum frekar karllægir áður fyrr og spiluðum mest megnis Pink Floyd og David Bowie. Eftir að hin frábæra söngkona Greta Mjöll Samúelsdóttir gekk til liðs við okkur höfum við hugsað málin upp á nýtt og úr varð samansafn laga allt frá 1967 til dagsins í dag.“

Ólafur segir Tónleikafélagið ætli sér að spila meira og vera með aðrar áherslur en áður. „Við vorum meira að setja upp eina tónleika eða sýningu á ári sem mjög mikið var lagt í, núna sjáum við fyrir okkur að spila oftar og vera virkari og sveigjanlegri.“

Ágóði tónleikanna mun renna í orgelsjóð Djúpavogskirkju. „Kirkjan var að kaupa nýtt orgel sem hún hefur líklega enganvegin efni á og við urðum sammála um að leggja innkomuna í þann sjóð,“ segir Ólafur að lokum. Hér má fylgjast með viðburðinum.


Ýmislegt annað verður hægt að gera um helgina.

 


Heimaleikir hjá kvennaliði Þróttar í blaki

Kvennalið Þróttar í blaki mæta Völsungi í tveimur leikjum í Neskaupstað um helgina. Fyrri leikurinn verður klukkan 20:00 í kvöld en sá seinni á morgun klukkan 14:00. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.


Gítarnámskeið og tónleikar á Egilsstöðum

Jón Hilmar Kárason gítarleikari mun halda skemmtilegt námskeið fyrir gítarleikara í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun laugardag, en Tónlistarskólinn í Fellabæ, Tónlistarskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Egilsstöðum og Tónlistarmiðstöð Austurlands bjóða þátttakendum námskeiðið þér að kostnaðarlausu. Sérstakur gestur á námskeiðinu er gítarleikarinn Öystein Magnús Gjerde.

Annað kvöld verða tónleikar þar Jón Hilmar ásamt hljómsveit sinni DÚTL koma fram og leika tónlist eftir hljómsveitina ásamt vel völdum ábreiðum. Hér má lesa frétt um námskeiðið.


Brján á Græna hattinum í kvöld

Fyrir þá sem eru á faraldsfæti um helgina og þá sem eru búsettir á Akureyri er rétt að minna á tónleika Brján til minningar um David Bowie á Græna hattinum í kvöld. Tónleikarnir eru í samstarfi við Hljóðkerfaleigu Austurlands en sjö manna hljómsveit ásamt söngvurum mun leika og syngja þekktustu lög Bowie. Sögumaður verður Óli Palli úr Rokklandi, en þó ekki í eigin persónu. Frétt um þetta má lesa hér.

 

Ljósmynd: Tónleikafélagið á Djúpavogi - myndin er frá árinu 2009.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.