Þótti vanta tímarit á borð við Æskuna og ABC
Fyrsta tölublað barna- og ungmennatímaritsins HVAÐ er komið út en mæðgurnar Ágústa Margrét Arnardóttir og Vigdís Guðlaugsdóttir á Djúpavogi voru gestir í Föstudagsþættinum á N4 fyrir skömmu og sögðu frá áherslum blaðsins sem og því hvernig hugmyndin að því kviknaði.
„Fyrir sex árum langaði mig rosa mikið að vera áskrifandi að tímariti og spurði mömmu, það var Júlíu-tímaritið, en henni fannst það meira vera um meiköpp og svoleiðis,” segir Vigdís. Aðspurð að því hvort þetta hafi verið kveikjan að HVAÐ segir Ágústa Margrét svo vera.
„Þetta var svona. Ég er á móti „meiköppvæðingu”, tískubylgjum og einhverju ónáttúrulegu fyrir börn. Á þessum tíma, fyrir sex árum, fannst mér barnaefni ekki nógu metnaðarfullt. Það hefur gerbreyst og nú eru frábærir þættir bæði í sjónvarpi og á vef. Mér þótti vanta efni eins og Æskan og ABC tímaritin voru í gamla daga en fann ekkert slíkt og þar með var fræið komið í hausinn á mér. Í september í fyrra lauk mínu fimmta fæðingarorlofi og þá fór ég að hugsa hvað mig lagnaði að gera,” segir Ágústa Margrét, en fjölskyldan hefur að undanförnu lagt meiri áherslu á samveru og útivist og minni á að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu.
Nafnið lá beint við
Ágústa Margrét stofnaði síður undir nafninu What to do in, á Instagram, Facebook og Snapchat, þar sem hún sýndi frá því sem fjölskyldan var að brasa saman og benti á útivistarmöguleika á þeim stöðum sem þau voru stödd hverju sinni. Í gegnum það segist hún einnig hafa áttað sig á því að þörfin fyrir upplýsingagjöf af þessu tagi væri mikil, en hún fékk fjölmargar fyrirspurnir gegnum miðlana, hvað væri hægt að gera hvar. Nafnið á Tímaritinu lá því beint við og er það stútfullt af uppbyggilegu efni.
„Blaðið á að vera hvetjandi, eflandi og upplýsandi. Þar er líka tekið á erfiðum málum, það inniheldur greinar eftir fjölskyldufræðing og við bendum á staði þar sem börn geta leitað ef eitthvað er að,” segir Ágústa Margrét.
Tímaritið verður gefið út tvisvar sinnum á ári og næsta blað er áætlaði í nóvember. Hægt er að nálgast það á heimasíðunni hvadtimarit.is og í öllum verslunum Pennans, Nettó og Hagkaupa.