Ungt fólk hafi áhrif á skipulagsmál

Skipulagsmál verða í brennidepli á ungmennaþingi Fljótsdalshéraðs sem haldið verður á morgun. Þar verður meðal annars spurt hvernig nýta megi skipulagið þannig að unga fólkið vilji búa áfram á svæðinu.

„Við erum með þátttakendur úr framhaldsskólum og elstu bekkjum grunnskóla þannig við munum útskýra hvernig aðalskipulag virkar. Síðan verðum við með spurningar og hópavinnu.

Markmiðið er að fá krakkana til að tala saman og fá þá til að segja hvað þeim finnst. Út úr þessu fáum við vonandi niðurstöður sem við getum nýtt í framtíðinni, hvernig fólk sér fyrir lífsskilyrðin á Fljótsdalshéraði og hvort það sjái fyrir sér að búa hér,“ segir Erla Jónsdóttir, formaður ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs.

Ráðið stendur fyrir þinginu, sem orðið er árlegt, en því til halds og trausts verður Páll J. Líndal, umhverfissálfræðingur sem talar um skipulagsmál út frá sjónarhóli sálfræði.

„Við skoðum mest aðalskipulagið og hvað felst í því. Það skiptir máli að ungt fólk geri sér grein fyrir því, hvernig allt líti út og hvernig það geti haft áhrif.“

Á þinginu verður lögð könnun fyrir þátttakendur með spurningum um til dæmis notkun almenningssamganga, ánægju með ýmis atriði í umhverfi sveitarfélagsins og hvort fólk sjái fyrir sér að búa á Fljótsdalshéraði í framtíðinni.

„Við krefjumst svara við stórum spurningum og það verður forvitnilegt að sjá niðurstöðurnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.