Unnur Birna Björnsdóttir og Björn Thoroddsen heimsækja Austurland
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. mar 2019 16:41 • Uppfært 20. mar 2019 17:32
Hljómsveit með Unni Birnu Björnsdóttur og Björn Thoroddsen í broddi fylkingar heimsækir Austurland í næstu viku. Farið verður í gegnum fjölbreyttar tónlistarstefnur á tónleikum þeirra.
Með Unni Birnu, sem spilar á fiðlu og syngur og gítarleikaranum Birni eru bassaleikarinn Sigurður Skafti Flosason og trommuleikarinn Skafti Flosason.
Þau hafa að undanförnu verið á ferð um Suðurland og höfuðborgarsvæðið en halda austur á bóginn í næstu viku til að spila á Tehúsinu Egilsstöðum á fimmtudag og Hildibrand í Neskaupstað á föstudag.
Á tónleikunum verður farið í gegnum tónlistarsöguna og stefnu, frá blús yfir í sving, djangó og frumsamið efni.
Unnur Birna er eini Íslendingurinn sem spilað hefur með Jethro Tull, en hún hefur ferðast með sveitinni af og til undanfarinn áratug. Því er erfitt að segja hvaða tónlist verður boðið upp á tónleikunum.
Nóg verður um að vera hjá Unni Birnu í ferðinni þar sem hún kemur einnig fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Austurlands um helgina.