Útskýrði tíu ára gömul fyrir bekknum hvað þýddi að vera intersex
Áætlað er að um 1,7% allra jarðarbúa fæðist án dæmigerðra líffræðilega kyneinkenna og flokkast sem intersex. Á Íslandi eru þessir einstaklingar um 6000 talsins. Ein þeirra er Bríet Finnsdóttir, 22ja ára Egilsstaðabúi, sem alla tíð hefur lagt sig fram um að útskýra fyrir öðrum hvað þýðir að vera intersex.„Þegar ég var tíu ára hélt ég kynningu fyrir bekkinn minn. Ég man að læknirinn sagði þá við mömmu að hún mætti ekki láta mig gera það – ég gleymi ekki augnaráði hans. Honum fannst þetta verulega slæmt.
Auðvitað get ég ekki sagt til um hvernig lífið mitt væri í dag ef ég hefði borið þetta stóra leyndarmál, en ég get hins vegar sagt að mér líður mjög vel að hafa ekki þurft að reyna það.
Okkur þótti mikilvægt að útskýra málið fyrir skólafélögum mínum. Þar fengu kennararnir mínir líka gullið tækifæri til að segja krökkunum frá því hvað við erum öll fjölbreytt. Þetta var opinn og samheldinn bekkur,“ segir Bríet í viðtali í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Eistun fjarlægð í æsku
Bríet er ein fárra sem kemur fram undir nafni í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International um stöðu intersex-fólks innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Samtökin hafa bent á að intersex einstaklingum kunni að vera mismunað og þeir sæti tilraunum til að laga líkama þeirra að því sem þyki „eðlilegt“, ýmis með skurðaðgerðum eða hormónameðferð.
Bríet undirgekkst aðgerð í æsku þar sem eistu, sem hún fæddist með, voru fjarlægð. Hún segir aðgerðina hafa haft neikvæð áhrif á heilsu sína síðar meir.
„Hormónar, sem eistun hefðu átt að framleiða, eru einstaklingsbundnir og þegar líkaminn framleiðir þá ekki getur verið mjög erfitt að stilla þá af með lyfjagjöf. Þar tel ég að hafi verið farnar leiðir sem voru ekki góðar fyrir mig.“
Þegar Bríet byrjaði á kynþroskaskeiðinu fékk hún plástra með kvenhormóninu estrógen sem hún fékk afar slæm útbrot af. Síðar var hún látin hafa getnaðarvarnapilluna í staðinn en pillan fór ekki vel í Bríeti.
„Ég gat á löngum tímabilum ekki mætt í skólann. Ef ég lagði á mig að mæta kláruðust kraftarnir hjá mér yfirleitt um miðja vikuna. Mamma fékk stundum ávítur fyrir að senda mig veika eða ósofna í skólann, en rök mömmu voru að ef ég færi ekki svona færi ég aldrei í skólann.“
Fékk loks testesterón
Sautján ára fór Bríet erlendis í skiptinám. Hún tók með sér ársbirgðir af pillunni og fór að stækka skammtinn, eftir að hafa lesið sér til um ráðleggingar lækna erlendis. Þegar hún kom heim vildi hún halda áfram á sömu braut.
„Ég fór fljótlega að hitta lækninn minn. Ég sagði honum frá þessum tilraunum og hann var nú ekki ánægður með mig. Þegar ég bað hann svo að skrifa upp á testesterón fyrir mig sagði hann bara: Þú ert orðin fullorðin, hafðu samband við þennan lækni, takk fyrir samstarfið og bless.“
Bríet fékk nýjan lækni, en þó ekki fyrr en eftir kvörtun til landlæknisembættisins. „Um leið og ég byrjaði sjálf að gagnrýna lyfjagjöfina mína og fór að hafa skoðun á því hvernig hormóna ég ætti að taka og í hvaða magni fór ég að lenda í útistöðum við lækna. Ég fékk til dæmis loksins, loksins, testesterón núna nýlega. Ég var búin að vera að biðja um það frá því ég var átján ára.“
„Ég er ekki með sjúkdóm“
Bríet er gagnrýnin á aðgerðir sem gerðar eru á intersex fólki. „Ég er ekki með sjúkdóm. Ég neita að viðurkenna genafjölbreytileika sem sjúkdóm. Jú, ég hef gengið í gegnum veikindi, en þau eru öll tengd því að hormónagjöfin mín er í fokki. Og eina ástæðan fyrir því að ég þarf hormónagjöf er sú að heilbrigð líffæri voru fjarlægð úr mér, þegar ég var barn. Veikindin mín eru afleiðing aðgerðar sem var framkvæmd á mér að óþörfu.
Ég veit ekki hvað hefði gerst ef ég hefði fengið að halda eistunum. En ég hins vegar veit hvað gerðist við það að eistun voru tekin úr mér. Ég veit að það var slæm ákvörðun, sem hafði verulega neikvæð áhrif á heilsu mína. Læknar hafa látið hafa eftir sér að kynkirtlar okkar sem erum intersex hafi engan tilgang. Það er fjarri lagi. Þeir hafa þann tilgang að framleiða hormóna og sjá þannig til þess að við séum heilbrigðar manneskjur.“
Einstaklingurinn geti sjálfur tekið ákvörðun
Hún segir þörf á umræðu um aðgerðirnar og framhald þeirra. Þær séu réttlætanlegar í ákveðnum tilfellum en alls ekki öllu.
„Inn á milli eru einstaklingar sem þurfa á inngripum að halda snemma á lífsleiðinni og það er enginn að mæla á móti þeim. En í flestum tilfellum eru félagslegar ástæður að baki þessum aðgerðum. Það vil ég að verði bannað. Ég vil að manneskjan sjálf fái tækifæri til að segja: Svona vil ég vera. Ekki að búið sé að taka þá ákvörðun fyrir hana svona snemma á lífsleiðinni.
Lýtaaðgerðir á intersex ungbörnum, eins og þær sem eru framkvæmdar í dag, eru ekki í lagi. Það á enginn að vera að pæla í því hvernig kynfæri barna líta út, svo lengi sem þau eru heilbrigð.“