„Verða ekki of formlegir en þó með hátíðlegum blæ“
„Við vonumst til þess að sjá sem flesta og munum gera okkar allra besta til þess að koma tónleikagestum í jólaskap,“ segir Jóhanna Seljan, forsprakki söngsveitarinnar Fjarðadætra sem heldur jólatónleika í samstarfi við Kirkju- og menningarmiðstöðina á Eskifirði á sunnudagskvöldið.
Fjarðadætur verða með hljómsveit með sér, sem er nokkur nýlunda, en þær eru þekktar fyrir lítinn sem engan undirleik í sínum flutningi. Einnig verða með þeim tveir gestasöngvarar, þær Hera Björk Þórhallsdóttir og Anya Shaddock frá Fáskrúðsfirði.
„Við erum mjög spenntar, það verður gaman að syngja með þeim Heru Björk, stórsöngkonu úr Reykjavík og hinni ungu og ótrúlega hæfileikaríku Önyu frá Fáskrúðsfirði,“ segir Jóhanna Seljan.
Aðspurð hvað það sé sem reki þorra landsmanna á jólatónleika á aðventunni segir Jóhanna; „Ég held að með auknu framboði tónleika allt árið um kring séum við Íslendingar orðin tónleikaþyrstari en við vorum. Fólk kannski leyfir sér svo sérstaklega að fara á tónleika á aðventunni til þess að kúpla sig út úr öllu jólastressinu og njóta. Hjá mörgum er þetta orðin hefð og nauðsynlegur partur af jólaundirbúningi.“
Jóhanna segir að bæði verði íslensk og erlend jólalög á dagskránni. „Við reynum að bjóða upp á eitthvað fyrir alla, tónleikarnir verða ekki of formlegir en þó með hátíðlegum blæ.“ Hér má fylgjast með viðburðinum.
Uppboð á piparkökuhúsum í Molanum á Reyðarfirði
Góðgerðarvika félagsmiðstöðvanna í Fjarðabyggð hefst í dag með því að ungmenni úr miðstöðunum koma saman í Molanum – en þau hafa útbúið piparkökuhús sem þau ætla að bjóða upp til styrktar góðum málefnum sem þau hafa sjálf kynnt sér og valið. Viðburðurinn verður milli klukkan 17:00 og 19:00. Hér má lesa um viðburðinn.
Jólamarkaður Barra
Hinn árlegi og stórglæsilegi Jólamarkaður Barra verður haldin á Valgerðarstöðum utan við Fellabæ á morgun laugardag milli klukkan 12:00 og 16:00.
Þorláksmessutónleikar Bubba í Valaskjálf
Í ár bregður Bubbi ekki út af vananum með að halda þorláksmessutónleika víðsvegar um landið, en fáar hefðir í tónlist hafa orðið jafn lífseigar og Þorláksmessutónleikarnir hans Bubba. Hann verður í Valaskjálf á morgun, laugardag, klukkan 20:30. Nánar má lesa um viðburðinn hér.