„Við erum öll í skýjunum“
„Þetta gekk bara frábærlega og við erum öll í skýjunum,“ segir Kristinn Þór Jónasson, sem fór fyrir Útsæðinu, bæjarhátíðinni á Eskifirði sem fram fór um helgina.
„Það var bókstaflega góð mæting á alla viðburði, veðrið var ásættanlegt og mjög gott í gær og við bara gætum ekki verið ánægðari,“ segir Kristinn Þór.
Í frétt um viðburðinn fyrir helgi var greint frá því að boðið yrði upp á tíu heilgrillaða lambaskrokka á kvöldvökunni á Eskjutúninu á laugardagskvöldið. „Við afgreiddum 550 skammta af lambakjöti og það kláraðist eiginlega akkúrat. Einnig vorum við með 1000 pylsur og af þeim fóru 600, þannig að enginn fór svangur heim.“
Á sunnudaginn var myndin Leiftur frá liðinni tíð sýnd í Valhöll, en um var að ræða svipmyndir úr safni Þórarins Hávarðssonar. Myndin var 70 mínútur og sýnd tvisvar yfir daginn.
„Sýningin var mjög vel sótt, eða um 150 manns í heildina. Hún var alveg frábær og ég held að það sé ljóst að sambærileg sýning verður að ári, en Tóti á mörghundruð klukkutíma af efni og því úr nægu að moða,“ segir Kristinn Þór, sem er staðráðinn í því að Útsæðið sé komið til að vera; „Við förum ekki að bakka út úr þessu. Þetta er með síðustu viðburðum sumarsins, hálfgerð sumarlok.“