„Við vonum að þetta slái í gegn“
„Ég held að þetta verði alveg frábært,“ segir Marvin Ómarsson, framkvæmdastjóri skíðasvæðisins í Oddsskarði um tónleika sem haldir verða í gangnamunna gömlu Oddsskarðsgangnanna á föstudagskvöldið.
Rappsveitin Úlfur Úlfur verður með tónleika í Oddsskarði á föstudagskvöldið, en það er SÚN sem kostar tónleikana.
„Í rauninni er þetta eitthvað sem okkur Guðjón Birgi Jóhannssyni hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands hefur langað að gera í nokkurn tíma. Þegar SÚN kom svo að máli við okkur með sömu hugmynd ákváðum við bara að slá til,“ segir Marvin.
Marvin segir að tónleikarnir verði í beinni útsendingu á Facebooksíðu Oddsskarð auk þess sem þeir verði einnig teknir upp.
„Við fengum svo Tanna Travel til liðs við okkur og þeir ætla að vera með fríar rútuferðir uppeftir. Við munum svo koma upp veitingasölu á svæðinu þannig að þetta getur ekki orðið betra. Á laugardaginn er svo okkar hefðbundna Tírólahátíð sem endar að vanda með glæsilegri flugeldasýningu um kvöldið.“
Þetta er aðeins brot að veglegri dagskrá skíðasvæðisins um páskana, en hana má í heild sinni sjá hér.
Stuð í Stafdal um páskana
Þá verður einnig mikið fjör á skíðasvæðinu í Stafdal um páskana á borð við fullorðinskvöld, þrautakóng, páskaeggjaleit og gönguskíðakennslu.
Dagskrána í Stafdal má lesa hér.
Tónleikar í Egilsbúð
Tónleikar verða með þeim Guðmundi R. Gíslasyni og Coney Island Babies í Egilsbúð í Neskaupstað annað kvöld. Nánar má lesa um þá hér.
Æðruleysismessa á Stöðvarfirði
Hin árlega Æðruleysismessa verður að vanda í Stöðvarfjarðarkirkju klukkan 14:00 á föstudaginn langa.
Yfirskriftin að þessu sinni er „æðruleysi til vonar” í samstarfi við AA fólk á Austfjörðum. Áhersla er á fjölbreytta tónlist, samsöng, vísnasöng og þekkt lög með gítarundirleik. Hópur tónlistarfólks sér um flutninginn. Vitnisburðir af reynslu úr lífinu eru fluttir. Öll tendrum við ljós á kertum framan við altarið í lok messunnar. Síðan er boðið upp á hressingu og efnt til samskota í safnaðarheimilinu.
Allir eru hjartanlega velkomnir.