„Vil sýna þjóðinni að transfólk er venjulegt fólk“

Veiga Grétarsdóttir, sem rær hringinn í kringum Ísland í sumar á kajak til styrktar Pieta-samtökunum, tók land við Vattarnes í sunnanverðum Reyðarfirði í gær en hún mun í kvöld halda fyrirlestur í bænum. Veiga segir róðurinn úti fyrir Austfjörðum hafa gengið vel en þar hafi oft verið þokukennt.

„Ég fór frá Höfn á föstudag. Meðfram Austfjörðunum hefur oft verið þoka, en ekki allan tímann.

Hún lá yfir þegar ég réri frá Vestrahorni að Hvalnesi en svo fór ég fyrir skriðurnar þar í blíðvíðri. Ég var þar með sterka sunnanátt í bakið, eiginlega of hvassa.

Ég stoppaði áður en ég fór fyrir Starmýrarfjörurnar yfir á Breiðdalsvík. Sú leið gekk vel, nema fyrir Hamarsfjörðinn. Þar var aðfallið hálfnað og það tafði mig. Ég ætlaði lengra þann daginn en endaði á að gista á Breiðdalsvík.

Í gær lá þokan yfir í fjörðunum austanverðum, það var bjartara í þeim sunnanverðum. Frá Andey [í mynni Fáskrúðsfjarðar] voru þungir straumar og það var gaman að róa í þeim,“ segir Veiga um róðurinn síðustu dag.

Hún lagði af stað frá heimabæ sínum, Ísafirði, um miðjan maí. Hún hefur því verið nú tvo mánuði á ferðinni en segist vonast til að ferðin fari að sækjast betur og hún verði ekki nema um mánuð að loka hringnum.

Sterkar taugar til Austfjarða

Veiga rær hringinn til styrktar Píeta, samtökum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Á fyrirlestri í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði klukkan 20:00 í kvöld ætlar hún að tala um æsku sína vestra, kynleiðréttingarferlið sem hún gekk í gegnum fyrir nokkrum árum, skilnaðinn við fyrrum maka, þunglyndið og sjálfsvígstilraunirnar sem hún gekk í gegnum og hvernig sé að lifa í samfélaginu sem kona en ekki karl, auk þess að ræða stuttlega um ferðina. Slíka fyrirlestra heldur hún í sjö byggðarlögum á meðan ferðinni stendur.

„Kynleiðréttingin er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum á minni lífstíð. Við hana breyttist allt. Ég hef þó aldrei verið eins hamingjusöm og nú,“ segir Veiga.

Hún er ekki ókunnug Reyðarfirði þar sem hún bjó um nokkurra mánaða skeið fyrir fáum árum. „Mér finnst fínt að vera komin á Reyðarfjörð. Mér leið ekki vel þegar ég bjó hér en það var ekki út af staðnum heldur mínu ástandi. Ég á taugar til staðarins og Austfjarða. Fyrrverandi konan mín er héðan og býr hér og ég hef komið hingað oft síðustu ár.“

Hægt að ganga í gegnum ýmislegt en halda í gleðina

Veiga hefur stundað kajakróður frá árinu 2003, þótt hún hafi tekið sér drjúgt hlé frá því um 2010 til 2016 þegar hún flutti aftur á Ísafjörð. Hún hefur síðustu tvö sumur unnið við að leiðsegja í kajakferðum, bæði þar og á Grænaldni. „Þetta er líf mitt í dag, þetta er ein besta vinna sem ég hef komist í.

Það hefur verið gamall draumur hjá mér að fara í stóran leiðangur eða ævintýri. Loksins núna eftir allt sem ég hef gengið í gegnum er ég komin með kjark og þor til þess.

Mig langar með ferðinni að sýna þjóðinni að transfólk er venjulegt fólk – og um leið að safna áheitum fyrir Píeta-samtökin. Ég vil sýna fólki að það er hægt að ganga í gegnum ýmislegt en lífið getur samt verið yndislegt. Ég hef aldrei verið jafn glöð.“

Veiga nýtir tækifærið á Reyðarfirði í dag til að slaka á, þvo og þurrka búnað sitt. Hún stefnir svo á að halda áfram til Norðfjarðar á morgun ef allt gengur að óskum. „Það kemur í ljós í fyrramálið. Ég þarf að ná að undirbúa búnaðinn minn.“

Fylgjast má með ferð Veigu í rauntíma, á Facebook og á Instagram. Hægt er að heita á hana með að leggja inn á reikning Píeta-samtakanna, 0301-13-305038 á kennitölu: 410416-0690.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.