Vildu láta gott af sér leiða með tombólu
Þrjár ungar stelpur á Vopnafirði söfnuðu nýverið rúmlega 8000 krónum til styrktar Rauða krossinum. Þær fóru af stað með þá hugmynd að láta gott af sér leiða.Það voru þær Jóhanna Laufey Hreiðarsdóttir og Lára Ingvarsdóttir sem upphaflega fóru af stað með hugmyndina um að halda tombóluna og styrkja gott málefni.
Þær voru í fyrstu í vafa um hvaða málefni skyldi styrkja, en eftir að hafa fengið uppástungur varð Rauði krossinn fyrir valinu.
Foreldrar þeirra veittu leyfi fyrir tómbólunni með því að eldri systir Jóhönnu, Þórhildur Inga, yrði með. Tombólan gekk vel og söfnuðust rúmlega 8300 krónur.
Berglind Sveinsdóttir, formaður Múlasýsludeildar Rauða krossins og Málfríður Björnsdóttir, gjaldkeri deildarinnar, veittu styrknum viðtöku.