Yfirheyrslan: Samfélagssvín leysa bara flest samfélagsvandamál

Áform um sérstök samfélags-svín sem lausn í sorphirðumálum á Borgarfirði eystra hafa vakið nokkra athygli síðustu daga. Helgi Hlynur Ásgrímsson sem fer fyrir verkefninu á Borgarfirði er í yfirheyrslu vikunnar.

Fyrirhugað er að festa kaup á svínum og fela þeim að éta lífrænt sorp sem til fellur á Borgarfirði en það hefur fram að þessu verið urðað ásamt öðru heimilissorpi. Helgi Hlynur segir það ekki hafa verið talið fýsilegt að keyra lífrænu sorpi langar vegalengdir með tilheyrandi vistspori.

Ekki eru öll smátriði komin á hreint varðand útfærslu hugmyndarinnar en vonir standa til að svínin geti hafist handa við að éta matarafganga í haust. Helgi segir reglugerðir flækja málið aðeins en segist vilja að svínin verði borðuð þegar þau hafa gert sitt gagn. „Ég sé fyrir mér síðustu myndina í Ástríksbókunum þar sem þorpsbúar koma saman í svínaveislu,“ segir Helgi.

 

Yfirheyrslan

Fullt nafn: Helgi Hlynur Ásgrímsson

Aldur: 49

Starf: Sitt lítið af hverju.

Maki: Nei.

Börn: Já talsvert.

Leysa samfélagssvín öll samfélagsvandamál? Nei en flest.

Hvernig gengur sauðburður? Vel í blíðunni.

Hver er uppáhalds Ástríksbókin þín? Ástríkur og Kleopatra.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Fjarðarborg.

Áhugamál? Já.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að vera bara augnablik að gera allt sem ég stefni á að gera.

Hver er þinn helsti kostur? Fljótur að sofna.

Hver er þinn helsti ókostur? Skapvondur.

Uppáhalds matur? Saltkjöt á veturna og hamborgarar á sumrin.

Uppáhalds lag? Bíldudals grænar baunir með Jolli og kóla.

Besta bók sem þú hefur lesið? Innansveitarkrónika.

Kaffi eða te? Kaffi allan daginn.

Svínakjöt eða lambakjöt? Sauðakjöt.

Duldir hæfileikar? Nei maður er nú ekkert að fela svoleiðis.

Mesta afrek? Markið sem ég skoraði fyrir UMFB í utandeildinni.

Syngur þú í sturtu? Nei.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum hvað væri það? Trú vesturlandabúa á kapítalismann.

Ef þú þú gætir boðið hverjum sem er úr mannkynssögunni í svínaveislu, hver yrði fyrir valinu? Jésú, það yrði helvíti mögnuð saga að segja frá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.