Yfirheyrslan: Tónskáld sem vildi geta flogið
Tónverkið O eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur hefur verið tilnefnt til þátttöku á Alþjóðlega tónskáldaþinginu Rostrum of composers. Ingibjörg er í yfirheyrslu vikunnar.
Ríkisútvarpið tilnefnir verkið til þátttöku í tónskáldaþinginu, sem fram fer í San Carlos de Bariloche í Argentínu dagana 14.-18. maí næstkomandi. „Þetta er auðvitað mikill heiður fyrir mig og gaman að vera tilnefnd. Þetta er stór vettvangur til kynningar á nýrri tónlist en líka einskonar keppni þar sem fulltrúar útvarpsstöðva velja besta verkið með því að skiptast á upptökum,“ segir Ingibjörg.
Ingibjörg Ýr útskirfaðist úr tónsmíðanámi frá Listaháskóla Íslands vorið 2016. „Ég kláraði B.A. gráðu í tónsmíðum frá LHÍ fyrir 3 árum. Eftir það vann ég sem starfsnemi hjá tónskáldinu Önnu Þorvaldsdóttur í Bretlandi, síðan hef ég samið tónlist við ýmis tilefni, til dæmis í leikhúsum og með Lilju Maríu Ásmundsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur í fjöllistahópnum Hlökk ásamt því að starfa sjálfstætt sem tónskáld. Í fyrra tók ég þátt í YRKJU IV sem er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónverkamiðstöðvar. Þá vann ég undir handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur og samdi þar O fyrir Sinfóníuhljómsveitina.“
Í umfjöllun Ríkisútvarpsins um verk Ingibjargar segir að það sé ferð umbreytingar í gegnum stóran, hringlaga og víbrandi massa. Í byrjun sé það fljótandi í himingeimnum langt í burtu en færist smám saman nær og verði skyndilega alltumlykjandi.
Yfirheyrslan:
Fullt nafn: Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir
Aldur: 28 ára
Starf: Ég sem tónlist og vinn á leikskóla
Maki: Þorfinnur Hannesson
Börn: Hannes Indriði I. Þorfinnsson
Hvernig semur maður tónverk? Ég byrja oft á því að hugsa svolítið vel um umgjörðina og verkefnið, hvaða flytjendur ég er að semja fyrir og hvert tilefnið er. Stundum koma hugmyndirnar auðveldlega en oft þarf maður að hafa fyrir þeim. Svo fer ég bara í ákveðið hugarástand og reyni að halda mer við efnið og hafa trú á því sem eg er að gera, stundum er það það erfiðasta.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Hús foreldra minna í Fellabæ og umhverfið í kring
Áhugamál? Fyrir utan tónlist finnst mér gaman að lesa og vera úti í náttúrunni og eyða tíma með fólkinu mínu
Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að fljúga!
Hver er þinn helsti kostur? Ég er geðgóð :)
Hver er þinn helsti ókostur? Ég er óskipulögð...
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Fiskisúpan sem eg var að læra að búa til
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Eitthvað með Björk
Besta bók sem þú hefur lesið? Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman, annars ómögulegt að velja
Kaffi eða te? Kaffi
Vínill eða geisladiskur? Vínyl er yndislegt að hlusta á en eg á ekki græju sem spilar svoleiðis svo ég verð að segja hitt
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Föðurafa minn
Hvað bræðir þig? Barnið mitt… og raunar öll börn
Syngur þú í sturtu? Nei en í bílnum!
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum hvað væri það? Allir yrðu umhverfissinnar
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Læra að spila á gítar, læra að tala frönsku og fara til Madagaskar