Framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Neskaupstað heldur á undan áætlun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. júl 2025 11:31 • Uppfært 30. júl 2025 11:33
Framkvæmdir við ný snjóflóðavarnamannvirki undir Nes- og Bakkagiljum í Neskaupstað eru heldur á undan áætlun vegna góðs tíðarfars. Búið er að byggja keilur á því svæði sem snjóflóð féll á íbúabyggð í mars árið 2023. Þá hefur verið samþykkt að bæta í varnir frá því sem upphaflega var áætlað.
„Þetta gengur ljómandi vel. Það hefur verið þurrt og gott. Veturinn var góður. En hópurinn okkar er líka góður,“ segir Viðar Hauksson, verkstjóri Héraðsverks sem byggir varnirnar.
Framkvæmdirnar hófust síðasta haust og áætlað er að þeim ljúki ekki fyrr en árið 2029. Út frá því er vinnan enn skammt á veg komin. Verkið heldur á undan áætlun.
Fimm keilum bætt við verkið
Byrjað var að byggja keilur ofan við Starmýri, þar sem snjóflóð féll á íbúðahús í mars árið 2023. Fyrstu tvær keilurnar voru orðnar virkar fyrir jól. Þær eru núna orðnar 11 talsins, fimm í efri röð og sex í neðri, fullbúnar ef á þarf að halda.
Skömmu fyrir utan er unnið í þremur keilum til viðbótar. Samkvæmt upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir sex keilum í viðbót þar þannig þær yrðu alls 20.
Í júní samþykkti ofanflóðanefnd að bæta við fimm keilum. Tvær koma innan við innra svæðið en þrjár utan við það ytra. Í bókun nefndarinnar kemur fram að kostnaður við þær sé um 200 milljónir eða 5% af upphaflegri kostnaðaráætlun upp á 4,4 milljarða. Hönnun er að hefjast á keilunum.
Stærsti varnargarður á Austurlandi
Héraðsverk er nýbyrjað á undirstöðum varnargarðs sem verður mikill um sig, 810 metra langur og yfir 20 metrar á hæð. Það verður lengsti snjóflóðavarnagarður sem reistur hefur verið á Austurlandi. „Við verðum í garðinum fram eftir hausti,“ segir Viðar.
Hann lýsir ánægju með samstarf við Framkvæmdasýslu ríkisins, sem hefur umsjón með verkinu og íbúa, sem annað slagið búa við læti út af sprengingum. Stutt hlé hefur verið gert á þeim en aftur verður byrjað að sprengja í næstu viku.