Skipulag vegna nýrra snjóflóðavarna í Neskaupstað komið í auglýsingaferli

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á síðasta fundi sínum auglýsingu á deiliskipulagi fyrir snjóflóðavarnir undir Nes- og Bakkagiljum ofan Neskaupstaðar. Áfram er þrýst á að framkvæmdin verði boðin út í haust.

Til stendur að reisa 730 metra langan þvergarð, um 20 metra háan. Með honum verða tvær keiluraðir sem eiga að draga úr krafti snjóflóða áður en þau skella á garðinum. Deiliskipulagið nær þó yfir mun stærra svæði, eða alls 23 hektara.

Frá því að auglýsing er send í loftið gefst almenningi sex vikur til að skila inn athugasemdum. Að því loknu gengur skipulagið til Skipulagsstofnunar til staðfestingar. Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð eru þar bundnar vonir við að skipulagið verði staðfest þannig að hægt verði að bjóða framkvæmdina út í haust.

Garðarnir eiga að verja byggðina sem tilheyrir Mýrum og Bökkum að mestu. Miðað við þær teikningar sem fyrir liggja færist öll núverandi byggð út af hættusvæði C en sveitarfélögum er skylt að annað hvort verja hús á svæði C eða kaupa þau.

Yst á bökkunum, við götuna Sæbakka, eru hús sem eftir sem áður verða á hættusvæði B. Hið elsta þeirra er byggt árið 2006, ári eftir að deiliskipulag þess svæðis var staðfest. Veðurstofa Íslands er meðal umsagnaraðila um deiliskipulag hérlendis.

Fjarðabyggð, Veðurstofan og Skipulagsstofnun hafa átt í samskiptum vegna þeirrar byggðar, meðal annars eftir fyrirspurnir á íbúafundi í Neskaupstað eftir snjóflóðin í lok mars. Samkvæmt lögum má byggja áfram innan byggðar á hættusvæði B, en skilyrði eru sett um stærð, styrkingar og að byggðin fari ekki í átt að fjallinu.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hefur alltaf verið unnið með það markmið að varnir þeirra húsa verði einnig tryggðar. Í bréfi Veðurstofunnar til sveitarfélagsins frá í júní segir að huga verði að vörnum fyrir hús á hættusvæði B þegar varnir húsa á svæði C hafi verið tryggðar.

Mynd: Landmótun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.