Á ábyrgð listafólks að einangrast ekki á suðvesturhorninu
Tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur Kristinsson hafa um árabil ferðast saman um landið til að halda tónleika. Þau verða á ferðinni fyrir austan í vikunni með glænýja hljómplötu, Faðmlög, í farteskinu og að sögn Svavars eru tónleikaferðirnar góð leið til að viðhalda og rækta vináttutengsl um land allt.
„Við höfum undanfarinn áratug eða svo verið að þróa dúettana okkar og leika okkur að taka allskonar lög og gera þau að okkar. Smám saman hefur það orðið að skemmtilegri sumarrútínu að koma og syngja fyrir allskonar fólk úti um landið, sjá framan í þá sem maður þekkir og sinna fólkinu sínu.
Þetta er besta leiðin sem maður hefur til þess að hitta allt fólkið sem maður þekkir og geta sinnt öllum stöðunum úti um landið því að smám saman byggjast upp sambönd hingað og þangað, það verður til vinátta og hlý sambönd. Þetta er því alveg kjörið fyrir listamann að gera, algjör lúxus í rauninni, að geta túrað um landið, hitt vini sína og skoðað staði sem manni þykir vænt um eins og Borgarfjörð eystri, Djúpavog og fleiri staði þó það sé stutt. Svo hefur Kristjana líka verið að vinna töluvert með tónlistarskólanum á Seyðisfirði þannig að hún er hagvön þar. Maður ber líka smá ábyrgð sem listamaður. Það má ekki bara loka sig af á suðvesturhorninu heldur verður að fara hringina. Það hjálpar til við að halda ákveðinni jarðtengingu og ég held reyndar að langflestir listamenn átti sig á þessu og reyni að rækta þessa tengingu.“
Brýr milli listafólks og samfélaga
Þau Svavar og Kristjana leggja mikið upp úr náinni og notalegri stemmingu á tónleikum sínum. Því liggur beint við að spyrja hvort að það sé allsstaðar um landið hægt að finna hentuga tónleikastaði, og þá ekki síst í ljósi umræðu sem öðru hvoru skýtur upp kollinum um skort á slíkum stöðum smærri stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er oft svolítil krísa, því staðir koma og fara, en undanfarin ár má kannski segja menningin fyrir vönduðum tónleikastöðum hafi eflst. Það eru líka ákveðnir aðilar sem hafa safnað reynslu og þekkingu og hafa fundið þennan sniðpunkt milli þess því að bjóða upp á aðstöðu sem þjónar þörfum síns samfélags og líka þörfum tónlistarfólksins sem er á ferðinni. Þar má nefna Tehúsið á Egilsstöðum og Já sæll í Fjarðarborg á Borgarfirði. Þar eru innanhúss reynsluboltar sem lifa fyrir að halda uppi menningarlífi, hafa reynslu af því að peppa og kynda undir mætingu og láta hlutina gerast. Það er alltaf svo hvetjandi að vinna með fólki sem hefur ástríðu fyrir þessu. Það er sama með Gránu á Sauðárkróki, Skrímslasetrið í Bíldudal, Skyrgerðina í Hveragerði og auðvitað Græna hattinn á Akureyri.“
Fersk og ógerilsneydd plata
Svavar og Kristjana voru að senda frá sér nýja plötu og má búast við því að aðdáendur þeirra verði ekki fyrir vonbrigðum.
„Hún heitir Faðmlög og með henni erum við í rauninni að skrásetja það sem við höfum verið að vinna saman að undanförnu. Það má segja að hún sé rökrétt framhald af Glæðum sem var fyrsta platan okkar saman. Hún er tekin upp á tónleikum sem við héldum fyrir vini okkar, er alveg hrein og laus við fíníseríngar, og þarna flytjum við lög sem við höfum verið að vinna með og finna okkar farveg í að flytja. Við erum með ástríðu fyrir ABBA svo þarna eru tvö lög frá þeim, svo eru sígild íslensk lög og frumsamin lög eftir okkur bæði líka. Við erum líka bæði búin að finna ástríðu fyrir því að miðla sögu og menningu. Horfa til þess hvaðan Íslendingar eru að koma og segja sögur. Svo reynum við líka að hafa gaman, segja brandara og flippa svolítið. Það er markmið hjá okkur að hafa enga tónleika eins hvað það varðar, það er ekkert skemmtilegt að hafa það allt eftir einhverju handriti.“
Þau Kristjana og Svavar verða á Tehúsinu á Egilsstöðum á föstudag og í Fjarðarborg á Borgarfirði á laugardag. Þá munu þau einnig bjóða upp á litla stofutónleika á Seyðisfirði og ljúka síðan helginni á Höfn í Hornafirði á sunnudag.