Samdi tónverk til minningar um föður sinn
Tónlistarhópurinn Mela frumflytur á sunnudag verkið Draumfarir eftir tónskáldið Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Hún samdi verkið um föður sinn sem lést af slysförum og birtist vinafólki eftir það í draumum.
Það eru þau Svanur Vilbergsson, Berta Dröfn Ómarsdóttir og Sóley Þrastardóttir sem leiða Mela, sem er félag listafólks frá Austurlandi, stofnað til að efla störf menntaðs listafólks á Austurlandi og styrkja tengsl listamanna af svæðinu.
Í þeim tilgangi hafði hópurinn samband við Ingibjörgu Ýr, sem er alin upp í Fellabæ, í mars 2023. Hún er dóttir Skarphéðins G. Þórissonar, líffræðings, sem fórst ásamt tveimur öðrum í flugslysi við hreindýratalningu í júlí árið 2023.
Birtist fólki í draumum
Ingibjörg hóf vinnu við tónverkið fyrir Mela í lok árs 2023. „Þá höfðum við í fjölskyldunni heyrt frá tveimur konum með stuttu millibili sem dreymdi pabba eftir að hann dó. Nokkru síðar átti ég samtal við þriðju konuna sem hafði hitt pabba í draumi en það gerðist stuttu fyrir slysið. Textinn í þessu verki er samansafn þess sem pabbi sagði við konurnar þrjár í draumum áður og eftir að hann dó.
Það er líka smá úr mínum eigin haus - hann hefur ekki mikið gert vart við sig síðan hann fór en einu sinni dreymdi mig að það væri risastór könguló föst við fótlegginn á mér og þá birtist pabbi allt í einu á gamla bílnum sínum (sem við kölluðum alltaf prinsessuna) og skaut köngulóna af með haglabyssu. Hann sagði ekkert og keyrði burt um leið og þetta var búið,“ segir Ingibjörg í tilkynningu hópsins.
Hún kveðst konunum innilega þakklát fyrir að leyfa henni að nota textann í tónverkinu sem kallast Draumfarir.
Fleiri verk á efnisskránni
Á efnisskránni verða einnig verk eftir Heitor Villa-Lobos, Charles Koechlin, Daniele Basini og sönglög eftir ýmis íslensk tónskáld. Flytjendur verða þau: Berta Dröfn Ómarsdóttir, sópran, Hildur Þórðardóttir, þverflauta, Sóley Þrastardóttir, þverflauta, Kerekesné Mészöly Virág, óbó, Ármann Helgason, klarinetta og Svanur Vilbergsson, gítar.
Tónleikarnir verða í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði og hefjast klukkan 14:00 á sunnudag.