Skip to main content
Glatt á hjalla hjá Antoni, til vistri og Sveini, til hægri, við bingóstjórnun. Mynd: GG

Engin þögn í salnum á meðan tölurnar eru lesnar upp í partýbingói

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. nóv 2025 17:58Uppfært 20. nóv 2025 18:01

Eskfirðingarnir Sveinn Sigurbjarnarson og Anton Berg Sævarsson hafa undanfarna mánuði fyllt hvert félagsheimilið á fætur öðru með partýbingóum sínum. Þeir segjast í fyrstu hafa hugsað um að lífga upp á skemmtanalífið í heimabænum um leið og þeir hafi séð tómarúm með brotthvarfi sveitaballanna. 

Anton og Sveinn, eða Tony & Svens, byrjuðu með partýbingó fyrstu helgina í október í fyrra í Randulfssjóhúsi á Eskifirði. „Fólk sagði okkur að það hefði ekki upplifað svona stemningu og mikið partý á Eskifirði í langan tíma,“ segir Sveinn.

Þeir fylltu húsið og þar með var boltinn byrjaður að rúlla. Þeir seldu upp á annað partýbingó í nóvember og enn og aftur um jólin. Þeir hafa síðan ferðast á milli bæjarhátíða í sumar. 

Á Neistaflugi troðfylltu þeir Egilsbúð í Neskaupstað. Það þurfti að neita fólki um þátttöku þar. Það var einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri. Þá var búið að fara út í fundarsali úti í bæ og sækja stóla,“ bætir Anton við.

Fólk gleymir keppninni

Í partýbingóunum er spilað bingó, eins og venjulegt er. Það sem bætist við er stanslaus tónlist en Anton hefur reynt fyrir sér sem plötusnúður. „Við vinnum mikið með tónlistina og reynum að spila lög sem allir kunna og syngja með. Síðan þarf að lesa salinn hvenær fólk vill fara að syngja og hækka í viðlaginu. Það er ekki verið að lesa upp tölurnar í neinni þögn,“ segir Anton.

„Yfirleitt eru síðustu vinningarnir þeir stærstu og mikil spenna í salnum á venjulegum bingóum. Hjá okkur er fólk oft búið að gleyma bingóinu og syngur bara og trallar. Það eru örugglega tíu manns búnir að missa af bingói þegar einhver kallar það,“ segir Sveinn.

Þátttakendur gleyma stundum tölunum í partýbingói. Mynd: GG

Tómarúm með brotthvarfi sveitaballanna

Þeir segjast hafa heyrt hugmyndina að partýbingói frá Bretlandi. Anton segir þó hugmyndina að samvinnunni hafa komið þegar hann sá Svein stjórna afmælisveislu foreldra sinna. „Mér fannst hann flottur uppi á sviði. Svo hugsaði ég ekki meira um það fyrr en nokkrum vikum síðar, að við gætum notað hæfileika hans í því og mína sem plötusnúðs í eitthvað og það endaði í bingói.“

En það skipti ekki síður máli að þeir sáu gat í skemmtanamarkaðinum. „Ballstemningin hefur minnkað með nýjum kynslóðum, og þótt það sé ball þá eru ekki endilega allir að koma til að dansa. Okkur hefur tekist að ná í breiðan aldurshóp. Eldra fólk kemur kannski til að spila bingó, yngra fólkið í partý en í lokin eru allir farnir að dansa, þótt það sé ekki nema við stólinn,“ segir Anton.

Að þessu fyrir gleðina

Aðspurðir segjast þeir vera meðvitaðir um að hafa báða fætur á jörðinni en umfram allt að þeir hafi gaman af því sem þeir eru að gera. Þeir hafa tekið að sér bæði veislustjórn og bingóhald víðar en á Austurlandi. „Maður gerir bara sitt eins og hægt er, síðan er það tilfinningin eftir á, að hafa gefið allt sitt og glatt fólk, hún er ólýsanleg,“ segir Anton.

Ég held að hluti af þessu sé hvað við höfum gaman af þessu. Ef maður fer að gera þetta fyrir annað en eigin gleði þá er kominn tími til að hætta,“ segir Sveinn.

Hann leggur líka áherslu á fjölbreytni. „Engin tvö bingó eru eins. Það eru aldrei sömu tölurnar, ekki alltaf sömu lögin og Svenni segir aldrei sömu vitleysuna. Ég held að fólk þurfi alltaf eitthvað nýtt,“ segir Anton að lokum.

Kvöldið byrjað á glimmarsprengju. Mynd: GG

Lengri útgáfa greinarinnar birtist áður í Austurglugganum.