Austfirskur doktorsnemi hlýtur styrk úr minningarsjóði Eðvarðs Sigurðsson

Breiðdælingurinn Hrafnkell Lárusson er einn fjögurra sem nýverið hlutu styrk úr minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar. Hrafnkell vinnur að rannsókn á þætti almennings í þróun Íslands sem lýðræðisríkis.

Eðvarð Sigurðsson var formaður Dagsbrúnar árin 1961-1982 og Verkamannasambands Íslands 1964-1975. Eftir andlát hans árið 1983 var stofnaður sjóður í hans minningu sem ætlað er að efla rannsóknir og útgáfu á verkum sem varða sérstaklega íslenskt samfélag, vinnumarkaðinn, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.

Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands. Úthlutað er úr honum 1. maí ár hvert og í ár fengu fjögur verkefni styrki. Eitt þeirra er verkefni Hrafnkels Lárussonar, doktorsnema í sagnfræði sem ber yfirskriftina „Lýðræði í mótun: viðhorf, iðkun og þátttaka almennings.“

Í tilkynningu segir að meginmarkmið rannsóknar Hrafnkels sé að varpa ljósi á hlut almennings í lýðræðisþróun íslensks samfélags á umbrotatímum, þegar Ísland var að nútímavæðast. Tímabilið sem um ræðir eru árin 1874-1915, en þá var Ísland að færast frá því að vera næsta einsleitt sveitasamfélag yfir í að vera blandað samfélag dreifbýlis og vaxandi þéttbýlis.

Áhersla verkefnisins er á þátttöku almennings í lýðræðisþróun, en rannsóknin er allt í senn á sviði stjórnmála-, félags- og menningarsögu. Í verkefninu er fjallað um árekstra sem urðu milli gamla samfélagsins og hins nýja, sem birtust m.a. í því að vaxandi stétt launafólks tók að virkja samtakamátt sinn og taka sér stöðu sem áhrifamikið afl í íslensku samfélagi.

Í umsögninni segir að verkefnið muni varpa nýju ljósi á hlut íslenskra verkalýðsfélaga í almennri lýðræðisþróun fyrir stofnun ASÍ árið 1916. „Hagsmunir launafólks og starfsemi verkalýðsfélaga eru áhrifamiklir þættir í skýringum á samfélagsþróun tímabilsins sem og aukinni lýðræðislegri þátttöku almennings, sem ekki aðeins barðist fyrir bættum kjörum heldur einnig fyrir félagslegum og pólitískum réttindum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.