„Borgarfjörður var ekki á ferðaáætluninni“

Bandaríkjamaðurinn Bryan Billy er nýjasti íbúi Borgarfjarðar. Þangað valdi hann að fara, frekar en heim, þegar landamæri ríkja heimsins lokuðust hver á fætur öðrum í lok mars út af Covid-19 faraldrinum. Bryan segist una sér vel í undraverðri náttúru á milli þess sem hann sinnir atvinnu sinni, póker.

„Borgarfjörður var ekki á áætluninni, Ísland var það hins vegar með þriggja mánaða fyrirvara. Kærastan mín, Rebeca, er frá Kosta Ríka og hana hafði lengi dreymt um að sjá norðurljósin og hafði sagt mér að mars væri góður tími til þess,“ segir Bryan í viðtali við Austurgluggann.

„Við ætluðum að keyra hringveginn á húsbíl. Við vorum um það bil hálfnuð, búin að finna okkur náttstað við Höfn í Hornafirði og vorum að búa okkur í háttinn, þegar fjölskyldumeðlimur lét okkur vita af því að Trump Bandaríkjaforseti væri búinn að hækka viðbúnaðarstigið, landamærin væru að lokast og skorað væri á Bandaríkjamenn á ferðalagi erlendis að koma sér heim hið snarasta.

Við höfðum mestar áhyggjur af því hvernig Rebeca kæmist heim til Kosta Ríka. Þarna var verið að aflýsa flugum um allan heim en leiðin til Boston var áfram opin. Foreldar mínir búa þar og ég var nokkuð viss um að ég kæmist heim, en ég vildi ekki að hún lokaðist hér inni. Við náðum ekki neinu sambandið við flugfélagið þannig að við ákváðum að keyra um nóttina suður til Keflavíkur.“

Örlög að vera á Borgarfirði

Þar beið parið í tvo daga áður en ljóst var að kærastan kæmist heim eftir krókaleiðum. Á þessum tíma fóru að renna á Bryan tvær grímur um hvort rétt væri að snúa aftur til Bandaríkjanna þar sem faraldurinn fór versnandi. „Ég fór því að hugsa með mér hvort það væri kannski best að ég yrði hér.“

Meðan Rebeca beið eftir upplýsingum um flugið sitt fór Bryan að skoða íbúðir sem væru lausar til langtímaleigu á Airbnb. Hann sendi fyrirspurnir á nokkra en leist hvað best á tilboðið sem hann fékk frá húseigandanum á Borgarfirði. „Tilboðið var það gott að það var sem örlögin höguðu því til að ég ætti að koma hingað.“

Hann skoðaði líka myndbönd af staðnum á YouTube. „Mér fannst landlagið himnaríki líkast. Ég elska að vera úti í náttúrunni og Borgarfjörður er gönguparadís. Ég sagði því við Rebecu að ég ætlaði að vera hér. Hún horfði með mér á myndböndin og sagði að hér væri fallegt. Ég veit að þótt hún vissi að hún þyrfti að snúa heim óskaði hún sér innst inni að festast hér líka.

Þakklátur fyrir umhyggju Borgfirðinga

Þegar Rebeca var farin bókaði Bryan sér flug austur í Egilsstaði og fékk far með áætlunarbílnum til Borgarfjarðar. Það tók hann nokkra daga að aðlagast nýjum aðstæðum.

„Þegar ég kom hingað fyrst heltók það mig hvað þetta væri afskekkt. Ég vissi að þetta væri smábær en það var allt lokað. Ég hafði lesið að hér byggju aðeins um 100 manns en ég fór að velta fyrir mér hvort hér væri yfir höfuð nokkur á veturna.

Þó ég sé vanur að vera einn var þetta samt erfitt fyrst. Það var svo mikil óvissa um hvenær eða hvort ég gæti komist héðan og heim ef ég vildi. Ég var á kaldri eyju þar sem ég talaði ekki tungumál heimamanna, í einangruðu smáþorpi í klukkustundar fjarlægð frá næsta bæ og bíllaus. Ef maður horfir svona á stöðuna þá verður hún ógnvekjandi. Ég hefur hins vegar alltaf komið mér í aðstæður þar sem óvissa ríkir þannig að ég er orðin vanur því og ræð vel við það.

Fyrst í stað sá ég ekki mikið til fólksins. Bæði eru hér færri á veturna og almennt hélt fólk sig heima út af veirunni. Hápunktur vikunnar félagslega var að fara í búðina. Hún er opin þrjá daga í viku og ég fagnaði því að það væri búðardagur. Ég gat spjallað við Bryndísi (Snjólfsdóttur) sem var að afgreiða. Hún sagði mér að hún byggi í næsta húsi og bauð mér að koma til sín ef það væri eitthvað sérstakt.

Þegar ég kom fyrst í búðina virtist hún vita hver ég væri og ég fékk á tilfinninguna að flestir bæjarbúar vissu að mér og hér væri til staðar samfélag sem hefði sinn hátt á að koma skilaboðum á milli. Ég er mjög þakklátur fyrir að vera á stað þar sem sannarlega er til staðar samfélag, þar sem nágrannarnir passa upp á þig. Ég hef samt mest verið út af fyrir mig, þetta er góður staður til þess. Ég hef náð að tengjast náttúrunni sem er frábært.“

Dugði að vera betri en hinir

Það vill Bryan til happs að hann getur stundað atvinnu sína svo að segja hvar sem er í heiminum, svo lengi sem hann hefur þokkalega nettengingu, en hann er pókerspilari. Hann segist hafa byrjað að spila 16 ára gamall á sama tíma og margir aðrir. Það hafi dugað honum til að komast áfram að vera betri en mótspilararnir.

Hann fór að lesa sér til og vann fyrir sér með spilamennskunni meðfram námi. Árið 2011 lokuðu bandarísk yfirvöld hins vegar nokkrum pókersíðum. Þá var annað hvort að flytja úr landi eða finna sér annað að gera. Bryan tók fyrri kostinn og lifði í samfélagi bandarískra pókerspilara erlendis sem varð til þess að hann lærði enn meira um spilið.

Pókerspilarar spila ýmist á mótum frammi fyrir áhorfendum og sjónvarpsvélum, eða á netinu. Bryan tilheyrir síðarnefndahópnum þannig að hann getur stundað vinnuna hvar sem er, svo lengi sem hann hafi þokkalegt netsamband.

Lífið veltur á millistykkinu

En tölvusambandið getur verið stopult. „Það varð skammhlaup sem steikti millistykkið sem breytir rafmagnsklónni úr bandarískri í evrópska. Líf mitt veltur á þessu millistykki og ég hugsaði með mér að slíkt væri örugglega ekki til á Borgarfirði. Ég reyndi að hringja í búðirnar á Egilsstöðum en þær voru með skertan opnunartíma út af faraldrinum.

Sem betur fer hafði ég númerið hjá Jakobi (Sigurðssyni) á áætlunarbílnum. Ég hringdi í hann, skýrði hvað gerðist og vonaði að hann gæti reddað málunum. Ég var hvorki viss um að hann myndi skilja mig eða gæti fundið stykkið svo ég sá fram á að þurfa í Egilsstaði daginn eftir.

Síðar sama dag bankaði Jakob upp á hjá mér með millistykkið. Þetta er annað dæmi um hvernig samfélagið hér hjálpast að. Þú heyrir bara í bílstjóranum og hann leysir öll þín vandamál. Ég hef bara farið einu sinni í Egilsstaði síðan ég kom hingað, það nægir mér.“

Og það er ekki fararsnið á honum. „Ég er búinn að tryggja mér húsnæði hér út maí svo ég reikna með að vera hér að minnsta kosti þangað til. Þá er heldur ekki orðið langt í sumarsólstöður. Mig langar að upplifa svæðið í sumarbúning og að það sé bjart allan sólarhringinn. Staðan í Bandaríkjunum er ekki góð sem stendur og ef ég get valið milli þess að vera hér eða þar þá vil ég frekar vera hér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.