Í 36 ár á hjólabretti: „Kennir krökkum þrautseigju“

Góðir gestir munu láta sjá sig í Fjarðabyggð í vikunni, en Hjólabrettaskóli Reykjavíkur mun standa þar fyrir námskeiði þar sem krökkum gefst kostur á að læra að renna sér á hjólabretti.

Skólinn hefur verið starfræktur frá árinu 2015 og hefur boðið upp á námskeið fyrir alla aldurshópa á ýmsum stöðum á landinu. Í Fjarðabyggð mun þó aðeins boðið upp námskeið fyrir börn að þessu sinni. Það er Steinar Fjeldsted, sem margir þekkja úr hljómsveitinni Quarashi, sem stendur á bak við skólann og mun kenna námskeiðið við annan mann. Hann segir að allir geti lært á bretti.

„Þetta er fyrir alla, unga sem aldna, konur og karla. Sá elsti sem hefur mætt á fullorðinsnámskeið hjá okkur var 71 árs. Ég er 44 ára og er búinn að vera á bretti í 36 ár. Þetta er góð hreyfing og útivist en reynir líka á hugann, því það þarf að hugsa um marga litla hluti á sömu sekúndunni.“

Þarf að standa upp aftur og aftur
Að sögn Steinars hefur orðið mikil vakning í hjólabrettaiðkun um allan heim að undanförnu. Markmið þeirra sem standa að skólanum er að bera boðskapinn sem víðast um landið og Steinar telur að það sé margt sem krakkar geti lært á að takast á við brettin. „Okkur finnst skemmtilegt að kynna hjólabretti fyrir sem flestum og sem víðast. Það er sérstaklega gaman að geta núna komið austur í fyrsta sinn því okkur hefur langað að gera það í nokkur ár. Að stunda brettaiðkun kennir krökkum þrautseigju. Ef þú vilt læra að gera ákveðna hluti á brettinu gengur það aldrei í fyrstu tilraun. Þú þarft að standa upp og reyna aftur og aftur. Þetta er bara það sama og gildir í lífinu og hjólabretti eru góð til að efla krakka í þessu.“

Námskeiðið er bæði hugsað fyrir byrjendur og lengra komna en það verður skipt í hópa eftir getu. „Við förum yfir öll helstu grunnatriði hjólabrettaíþróttarinnar eins og til dæmis að ýta sér, hvernig á að standa, snúa við, líkamsstöður og Ollie (hoppa) svo fátt eitt sé nefnt. En fyrir þá sem eru lengra komnir verður farið í ögn flóknari hluti eins og t.d. Kickflip, Shuvit og jafnvel 360 flip ef einhver er klár í það.“

Opið fyrir skráningu
Námskeiðið stendur í þrjá daga, kennt er frá kl. 13 til 14:30 og verða fyrstu tveir dagarnir kenndir á Reyðarfirði en lokadagurinn verður í Neskaupstað. Á námskeiðinu er hjálmaskylda og einnig eru allir hvattir til að koma með þær hlífar sem þeir eiga. Það er gott að koma með eigið hjólabretti en fyrir þá sem ekki eiga bretti verður hægt að fá lánað. Steinar segir að það sé virkilega gaman að kenna krökkum og að undantekningalaust sé mikið fjör á námskeiðunum hjá þeim. 

„Það gefur okkur mikið að sjá að krakkarnir skemmta sér mjög vel. Til þess er leikurinn gerður. Krakkarnir koma líka aftur og aftur, sum hafa verið í mörg ár og bíða eftir okkur þegar við komum. Námskeiðin eru yfirleitt mjög fljót að fyllast, og það gildir bara fyrstur skráir, fyrstur fær. Þannig að ég vil hvetja alla til að skrá sig sem fyrst.“

Skráningu lýkur í dag og hægt að sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Fjarðabyggðar eða á Facebook-síðu Hjólabrettaskóla Reykjavíkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.