Búið að nota öll hljómsveitarnöfn heimsins þegar bæjarfjallið er orðið tekið

Hljómsveitin Svartfell, sem Borgfirðingurinn Magni Ásgeirsson fer fyrir, sendi í gær frá sér sitt annað lag sem ber heitið „Draumur.“ Hún er ekki eina hljómsveitin í heiminum sem ber það nafn þótt hin sé nokkuð í burtu frá bæjarfjalli Borgfirðinga.

Svartfell skipa auka Magna þeir Valur Freyr og Arnar Tryggvason sem segjast spila „nýrómantískar rokkstefnur.“ Sveitin dregur nafn sitt f Svartfelli sem gnæfir yfir Bakkagerðisþorp á Borgarfirði.

„Við vorum lengi að finna nafn. Upphaflega vinnuheitið var VAM, en það er hrikalegt hljómsveitarnafn, fyrir utan að það hefur verið notað á hljómsveit, þótt það væri með öðrum rithætti.

Ég kastaði Svartfellsnafninu fram í umræðum. Það var ekki selt strax en vann á. Þetta er fallegt fjall, eitt af mínum þremur uppáhaldsfjöllum. Það fellur vel að nýrómantíkinni, drungalegt en samt eitthvað svo fallegt,“ segir Magni.

Franskt dauðarokk

En líkt og VAM reyndist Svartfellsnafnið hafa verið notað áður. „Við komumst að því nokkrum vikum síðar að það er frönsk sveit sem spilar argasta dauðarokka með þessu nafni. Mér finnst samt við eiga meira tilkall til nafnsins, ég efa að meðlimir þeirrar sveitar hafi séð Svartfellið, hvað þá hvílt sig upp á því.“

Misskilningurinn hélt reyndar áfram þegar Magni fór að setja upp síðu á streymisveitunni Spotify. „Listamenn geta fengið aðgang að sínum síðum til að setja inn upplýsingar og ég fékk líka aðgang að svæði Frakkanna. Ég bað um að klippt yrði á hann í hvelli. Það er búið að nota öll hljómsveitarnöfn þegar ekki lengur hægt að nefna eftir bæjarfjallinu.“

Hirðskáldið

En sveitin á sér fleiri Borgarfjarðartengingar. Textahöfundur „Draums“ er Ásgrímur Ingi Arngrímsson, náfrændi Magna frá Borgarfirði sem hann lýsir sem hirðskáldi sínu.

„Við höfum saman síðan við gáfum út lagið „Heim“ sem lýsa má sem Bræðslulaginu. Það var það fyrsta sem ég fékk hann til að semja fyrir mig.

Ég hef alltaf dáðst að honum sem ljóðskáldi. Ég man eftir því þegar hann bjó í Reykjavík og var þar niður á torgi að pranga ljóðabókunum sínum inn á ölótt fólk. Þá er ekkert mál að selja þær. Það er fátt íslenskara en að kaupa sér ljóðabækur fullur.

Það er misjafnt hvernig okkar samstarfi er háttað. Yfirleitt sendi ég honum demó af laginu með einhverjum bulltexta. Annað hvort þýðir hann textann út frá einhverju sem hann finnur í honum eða semur alveg nýjan. Hann er afar heppinn með orð þessi drengur.“

En fyrst rætt er við Magna um Borgarfjörð verður ekki hjá því komist að spyrja um hvort Bræðslan verði á sínum stað í lok júlí. „Við erum á fundum þessa dagana með ýmsum aðilum til að ná utan um verkefnið. Bræðslan er meira en bara tónleikarnir. Ætli við verðum ekki búnir að mynda okkur almennilega skoðun á þessu eftir um tvær vikur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.