„Ég bíð spennt eftir að Will Ferrell deili laginu líka“

Leikstjórinn og Héraðsbúinn fyrrverandi Guðný Rós Þórhallsdóttir gerði ásamt samstarfskonu sinni Birtu Rán Björgvinsdóttur tónlistarmyndbandið við Júróvisjónlag Daða og Gagnamagnsins Think About Things sem slegið hefur í gegn, nú síðast eftir að stórleikarinn Russell Crowe deildi því á Twitter.


Daði Freyr og umboðsmaðurinn hans höfðu samband við þær Birtu Rán sem er tökumaðurinn og hinn helmingurinn af framleiðslufyrirtækinu Andvara. „Árni Hrafn, umboðsmaður Daða, þekkti Birtu sem hefur gert heilann helling af geggjuðum verkefnum, bæði með mér og án,“ segir Guðný og hlær.

„Upprunalega hugmyndin kom frá Daða sjálfum og við urðum mjög spenntar fyrir henni strax. Ég skrifaði síðan handritið út frá hans hugmynd. Það urðu einhverjar breytingar á leiðinni en við vorum mjög trú upprunalegu hugmyndinni samt sem áður.“

Til gamans má geta að þegar vindvélin fer í gang í myndbandinu þá er ekki um vindvél að ræða heldur tvo fullvaxta karlmenn sem liggja á gólfinu með hárblásara í báðum höndum. Fjóra hárblásara þurfti til að hreyfa við síðu hári Daða.

Þá má greina fleiri austfirskt tengsl í myndbandinu. Meðal leikara í því er Arnaldur Máni Finnsson, fyrrum ritstjóri Austurlands og núverandi sóknarprestur á Staðarstað. Með honum er sonur hans, Þorfinnur.

Guðný útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2017 en ári áður stofnuðu þær vinkonur Andvara. „Þá gerðum við fyrsta myndbandið okkar sem heitir Elsku stelpur. Myndbandið var við siguratriði Skrekks þá. Svo höfum við gert mikið af efni og til dæmis eitt júróvisjón tónlistarmyndband á ári hingað til.

Það vakti að sjálfsögðu athygli þegar spurðist út að Hollywood-leikarinn Russell Crowe deildi myndbandinu á Twittersíðu sinni. „Þetta er bara mjög óraunverulegt. Það varð allt í einu sprengja, við vissum ekki af hverju en Daði var seint í gærkvöldi að reyna að komast að því hvað hafði gerst. Þá voru það einhverjir frægir frá Bretlandi og Þýskalandi sem deildu laginu og svo kom Russell í kjölfarið. Ég bíð spennt eftir að Will Ferrell deili laginu líka,“ segir hún.

En myndbandið fór úr því að vera með 15.000 áhorf yfir tæp 50.000 áhorf á rétt tæpum sólarhring eftir að Russell deildi laginu.

Guðný Rós leikstjóri myndbandsins. Mynd úr einkasafni. 




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.