„Ég vil efla áhuga og starfsemi fyrir börn sem hafa áhuga“
Berglind Sigurðardóttir á Refsstað í Vopnafirði hefur haldið opið hús frá árinu 2011 í gömlu refahúsi sem þau hjónin breyttu í hesthús sem fékk fljótt nafið Tuggan. Í fyrra reistu þau svo áfasta reiðskemmu við hesthúsið og buðu þá krökkum að koma og prófa að fara á hestbak. Á morgun laugardaginn 8. febrúar verður svo næsta opna hús.
„Það eru allir velkomnir, jafnt börn sem fullorðnir, að koma og setjast á hestbak. Við tókum upp á því að bjóða krökkum á bak eftir að við reistum reiðskemmuna okkar. Þá vorum við með aðstöðu sem við vildum nýta til að leifa börnum og byrjendum að fara á hestbak,“ segir Berglind.
Hún segir að opna húsið í fyrra hafi tekist mjög vel. „Þeim fannst mjög gaman í fyrra og var vel mætt þrátt fyrir tíu til tólf stiga frost en allir krakkarnir létu sig hafa það að fara á hestbak og sumir fóru oftar en einu sinni. Núna er ég kominn með pall sem börnin geta notað til stíga á bak svo ekki þurfi að lyfta þeim þar sem ég hef ekki heilsu í slíkt.“
Berglind segir að hugmyndin að opna húsinu hafi verið í fyrstu til fagna afmæli hennar og um leið þeim áfanga að taka hluta hesthússins í notkun en svo varð þetta bara að árlegum viðburði þar sem við buðum upp á hangikjöt og missterkan vökva. En eftir að skemman kom vildi Berglind nýta hana til að efla áhuga barna á hestamennskunni og hafa því veitingarnar breyst að mestu í safa og eitthvað létt með því en að sjálfsögðu er ekki haldin afmælishátíð hesthússins án ,,Bleika drykksins” sem verið hefur einkenni hesthússins frá upphafi en hann er aðeins fyrir fullorna.
„Það er alls ekki nóg æskulýðstarf í gangi í hestamennskunni hér og mikil vöntun þar á. Ég vildi með þessu leggja mitt af mörkum og jafnframt sína að hér er aðstaða opin öllum sem vilja nýta.“
Hún bætir við. „Nógur er áhuginn hjá krökkunum. Við fullorðnu sem erum í þessum bransa megum alveg taka okkur á að sinna þeim yngri. Þetta er ekki gert til að græða heldur af hugsjón.“ Sjálf vildi hún að hún hefði heilsu til að leggja meira af mörkum til að sinna börnum og hestamennsku þeirra en eins og er þá er það því miður ekki í hægt.
Hún bendir á að plássið sé nóg í hesthúsinu fyrir fólk sem vill nýta það fyrir hestana sína. Skemman er að vísu ekki stór en nógu stór að hennar mati fyrir æskulýðsstarf og frumtamningar, til þess var hún byggð.
„Ég hef aðstöðu sem er upplögð fyrir fólk sem er nýtt í þessu til að koma og nýta hana. Miðað við að þetta er einkaframkvæmd þá er ég ansi stolt af þessari reiðskemmu okkar Skúla og það eru allir velkomnir milli 18:00 og 21:00 á laugardaginn.“
Ungur nemur, gamall temur. Frá opna húsinu 2019. Mynd. Berglind Sigurðardóttir