Ekkert Eistnaflug í sumar
Ákveðið hefur verið að fresta rokkhátíðinni Eistnaflugi um ár vegna samkomubanns sem sett var til að hindra útbreiðslu Covid-19 faraldursins.Þetta kemur fram í tilkynningu sem tónleikahaldarar sendu frá sér fyrir stundu. Halda átti hátíðina í Neskaupstað 9. – 12. júlí.
Þar segir að á sérstökum tímum þurfi að taka erfiðar ákvarðanir og þessi sé ein þeirra. Í ljósi aðstæðna telji skipuleggjendur hátíðarinnar ekki skynsamlegt, né öruggt, að stefna saman þeim mikla fjölda gesta, listamanna og starfsfólks sem heimsæki hátíðina ár hvert.
Búið var að staðfesta nokkrar hljómsveitir á hátíðina, þar af þrjár erlendar auk íslenskra sveita á borð við Dimmu, Forgarð helvítis og Alchemiu. Þeim sem þegar hafa keypt miða býðst að færa hann yfir á næsta ár eða fá hann endurgreiddan.
Í tilkynningunni segjast skipuleggjendur þó ekki vera að baki dottnir og þá langi til að gera eitthvað skemmtilegt í sumar til að gleðja tónleikaþyrsta þungarokkara. Ýmsar hugmyndir hafi verið ræddar en öllum tillögum sé tekið fagnandi.