Engir Franskir dagar í sumar

Skipuleggjendur bæjarhátíðarinnar Franskra daga á Fáskrúðsfirði hafa tekið ákvörðun um að halda hátíðina ekki í ár í ljósi Covid-19 faraldursins.

„Kæru vinir. Það sem við ætluðum ekki að láta gerast varð óhjákvæmilegt og því hefur Frönskum dögum verið aflýst.“

Á þessum orðum hefst tilkynning skipuleggjenda Franskra daga. Þeir fylgja þar með í fótspor skipuleggjenda fjölda annarra hátíða á Austurlandi í sumar sem hafa aflýst.

Þegar er búið að aflýsa Bræðslunni, LungA og Eistnaflugi. Að auki er búið að fella niður 17. júní hátíðahöld í Fjarðabyggð, sjómannadaginn á Seyðisfirði og afmælishátíð kaupstaðarins. Þá er útfærsla hátíðahalda á 17. júní á Fljótsdalshéraði í skoðun.

Slakað hefur verið á kröfum samkomubanns síðustu viku en í tilkynningu skipuleggjenda Franskra daga segir að líkur séu á að skemmtanahald verði mjög takmarkað í allt sumar. Því séu engar forsendur til að halda úti viðburðum sem færi hátíðinni nauðsynlegar tekjur, auk þess að vera lykilatriði í dagskránni. Að auki hafi verið hætta á að fólk myndi ekki njóta sín í dagskránni út af smithættu.

Dagskrá hátíðarinnar, sem haldin er í lok júlí ár hvert, átti að vera sérlega vegleg í sumar þar sem hátíðin væri númer 25 í röðinni. Til leiks höfðu verið kynntir listamenn á borð við Jóhönnu Guðrúnu, hljómsveitina Buff, Latabæ og Bubba Morthens auk þess sem innan við vika er síðan tilkynnt var að Lalli töframaður myndi mæta á svæðið. Fullri endurgreiðslu er heitið í gegnum Tix.is til þeirra sem keypt höfðu miða á viðburði.

Skipuleggjendur hyggjast hins vegar nýta tímann sérlega vel til að undirbúa hátíðina á næsta ári, þar sem haldið verður upp á 25 ára afmælið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.