Engir Franskir dagar í sumar
Skipuleggjendur bæjarhátíðarinnar Franskra daga á Fáskrúðsfirði hafa tekið ákvörðun um að halda hátíðina ekki í ár í ljósi Covid-19 faraldursins.„Kæru vinir. Það sem við ætluðum ekki að láta gerast varð óhjákvæmilegt og því hefur Frönskum dögum verið aflýst.“
Á þessum orðum hefst tilkynning skipuleggjenda Franskra daga. Þeir fylgja þar með í fótspor skipuleggjenda fjölda annarra hátíða á Austurlandi í sumar sem hafa aflýst.
Þegar er búið að aflýsa Bræðslunni, LungA og Eistnaflugi. Að auki er búið að fella niður 17. júní hátíðahöld í Fjarðabyggð, sjómannadaginn á Seyðisfirði og afmælishátíð kaupstaðarins. Þá er útfærsla hátíðahalda á 17. júní á Fljótsdalshéraði í skoðun.
Slakað hefur verið á kröfum samkomubanns síðustu viku en í tilkynningu skipuleggjenda Franskra daga segir að líkur séu á að skemmtanahald verði mjög takmarkað í allt sumar. Því séu engar forsendur til að halda úti viðburðum sem færi hátíðinni nauðsynlegar tekjur, auk þess að vera lykilatriði í dagskránni. Að auki hafi verið hætta á að fólk myndi ekki njóta sín í dagskránni út af smithættu.
Dagskrá hátíðarinnar, sem haldin er í lok júlí ár hvert, átti að vera sérlega vegleg í sumar þar sem hátíðin væri númer 25 í röðinni. Til leiks höfðu verið kynntir listamenn á borð við Jóhönnu Guðrúnu, hljómsveitina Buff, Latabæ og Bubba Morthens auk þess sem innan við vika er síðan tilkynnt var að Lalli töframaður myndi mæta á svæðið. Fullri endurgreiðslu er heitið í gegnum Tix.is til þeirra sem keypt höfðu miða á viðburði.
Skipuleggjendur hyggjast hins vegar nýta tímann sérlega vel til að undirbúa hátíðina á næsta ári, þar sem haldið verður upp á 25 ára afmælið.