Færri ferðamenn – meiri fegurð
Ferðamönnum er ráðlagt að hraða sér í gegnum höfuðborgina og drífa sig beint upp í næstu flugvél austur á land í grein sem birtist nýlega í bandaríska lífsstílstímaritinu Cosmopolitan. Blaðamaður ritsins heimsótti fjórðunginn í haust og fer um hann lofsamlegum orðum.„Þegar þú hugar um Ísland koma líklega upp í huga þér myndir af neonbláu vatninu í Bláa lóninu og af Reykjavíkurborg, vinsælum ferðamannastöðum á vesturhluta landsins. En hefurðu einhvern tíman hugsað um austurhlutann? Nei, ekki satt? Hann kann að vera utan alfaraleiðar en það er þess virði að heimsækja hann því – já, ég segi það satt – hann er flottari en vinsælu staðirnir sem þú sérð á Instagram.“
Þannig hefst grein Carinu Hsieh sem birtist nýverið á grein Cosmopolitan. Greinin ber titilinn „Þið verðið að tékka á Austurlandi - miklu færri ferðamenn, miklu meigi fegurð“ en þar tekur Carina tekur þar fyrir átta staði eða athafnir á Austurlandi og mælir með við aðra ferðalanga sem hafa hug á að feta í hennar spor.
„Þið vitið að allir sem heimsækja Ísland fara í Bláa lónið? Sá drullupollur er bara affallsvatn úr verksmiðju. Það er ekki einu sinni leyndarmál. En það eru fleiri náttúrulaugar á Íslandi, til dæmis Vök baths, sem opnaði í sumar,“ segir í umfjölluninni um Vök.
Ræktun Móður Jarðar í Vallanesi heillaði einnig Carinu Hsieh frá Cosmopolitan. Þar sé sjálfbærni í fyrirrúmi og dásamar hún hönnun Eymundar Magnússonar á kerfum endurnýta og endurvinna það sem fellur til við starfsemina. Þá hafi það aukið virðingu hennar fyrir lífrænni ræktun að fræðast um erfiðleikana sem fylgi því að stunda landbúnað á Íslandi.
Carina heimsækir ekki bara afmarkaða áfangastaði heldur mælir hún einnig með að ferðamenni reyni að elta uppi Lagarfljótsorminn sem bóndi einn á svæðinu hafi fest á filmu fyrir nokkrum árum. Þá dásamar hún að hægt sé að drekka vatnið beint úr krananum og tekur það fram að það að kaupa vatn í flösku á Íslandi sé besta leiðin til að koma upp um sig sem fávísan ferðalang.
Carina dásamar ekki bara vatnið sem rennur úr krananum heldur það sem fellur í fossunum. Hún nefnir Flögufoss í Breiðdal sem að liggi falleg gönguleið. Þá hafi ekki spillt fyrir að finna gómsæt ber á leiðinni. Þá sé alltaf þess virði að eltast við norðurljósin, sum hótel bjóði meira að segja upp á að næturvaktin hringi og vekja gesti sem vilji sjá þau. „Ég er ekki viss um að nágrannarnir í New York myndu láta mig vita þótt kviknað væri í húsinu okkar.“
En mesta hrósið í grein Carinu fær Óbyggðasetrið í Fljótsdal, annars vegar fyrir safnið sjálf, hins vegar fyrir kláfferjuna yfir Jökulsá. Carina sér meira að segja sérstaka ástæðu til að taka það fram að hún sé ekki styrkt af safninu áður en hún skrifar um það langa lofræðu, hún hafi einfaldlega fallið kylliflöt fyrir þeirri miklu vinnu og ást sem lögð hafi verið í staðinn sem sé eins konar „barna Disney-land um sögu Íslands.“
Hún hrósar gistiaðstöðunni, matseldinni, baðhúsinu, stjörnuskoðunarmiðstöðinni, hestunum og kindunum en sérstaklega kláfnum. Að fara yfir ána á honum sé ógnvekjandi en líka skemmtilegt og láti manni líða eins og Indiana Jones. Hún hafi skemmt sér svo vel að hún hafi farið fjórum sinnum fram og til baka yfir ána í kláfnum.