Fjölsótt þjóðahátíð á Vopnafirði – Myndir

Vopnfirðingar lögðu margir hverjir leið sína í félagsheimilið Miklagarð á laugardag þar sem haldin var þjóðahátíð í fyrsta sinn á Vopnafirði. Verkefnastjóri hjá Vopnafjarðarhreppi segir fulla þörf á samtali í samfélaginu sem inniheldur orðið fólk af meira en tuttugu þjóðernum.

„Ég byrjaði á að þróa þessa hugmynd í haust og fékk svo með mér pólska vinkonu mína. Smám saman bættist í hópinn. Eftir áramótin fór allt á fullt og við notuðum allar hugmyndir sem komu fram,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnastjóri æskulýðs-, tómstunda- og fjölmenningarmála hjá Vopnafjarðarhreppi.

Hún segir að við undirbúning hátíðarinnar hafi komið í ljós að fólk frá 21 þjóð, að Íslendingum meðtöldum, búi á Vopnafirði en erlendum íbúum þar hefur fjölgað stöðugt undanfarin ár.

Af þeim voru þrettán þjóðir með kynningar á menningu sinni á deginum. Má þar nefna þjóðbúninga frá Tælandi og Póllandi, mat frá Ungverjalandi, Svartfjallalandi, Póllandi, Búlgaríu og Danmörku auk þess sem leikskólabörn á Vopnafirði sungu lagið sem Íslendingar þekkja sem Meistara Jakob á pólsku.

Einnig voru sýnd myndbönd og farið með kynningar á sviði. Meðal annars kom fram að í Svartfjallalandi er gata nefnd eftir Íslendingum sem voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði landsins.

Vopnfirðingar þáðu boðið með þökkum og segir Þórhildur að fjölmennt hafi verið í félagsheimilinu á laugardaginn. „Það var rosalega vel mætt, við sem stóðum fyrir þessum degi erum enn í skýjunum.“

Þórhildur segir að dagurinn sé þó aðeins upphafið á frekari stuðningi við þá íbúa Vopnafjarðar sem séu af erlendu bergi brotnir. Í framhaldinu standi til að koma upp hópi meðal erlendra íbúa á Vopnafirði þar sem þeir geta hist og borið saman bækur sínar, meðal annars nýtt tækifærið til að æfa sig í íslensku.

„Við viljum búa til fjölbreytilegt samfélag og erum meðvituð um að halda þarf vel utan um þennan hóp til að bæta samfélagið,“ segir Þórhildur.

Myndir: Þórhildur Sigurðardóttir

Fjolmenning10
Fjolmenning11
Fjolmenning12
Fjolmenning13
Fjolmenning14
Fjolmenning2
Fjolmenning3
Fjolmenning4
Fjolmenning5
Fjolmenning6
Fjolmenning7
Fjolmenning8
Fjolmenning9
Fjolmenning1



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.