Fjölsótt þjóðahátíð á Vopnafirði – Myndir
Vopnfirðingar lögðu margir hverjir leið sína í félagsheimilið Miklagarð á laugardag þar sem haldin var þjóðahátíð í fyrsta sinn á Vopnafirði. Verkefnastjóri hjá Vopnafjarðarhreppi segir fulla þörf á samtali í samfélaginu sem inniheldur orðið fólk af meira en tuttugu þjóðernum.„Ég byrjaði á að þróa þessa hugmynd í haust og fékk svo með mér pólska vinkonu mína. Smám saman bættist í hópinn. Eftir áramótin fór allt á fullt og við notuðum allar hugmyndir sem komu fram,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnastjóri æskulýðs-, tómstunda- og fjölmenningarmála hjá Vopnafjarðarhreppi.
Hún segir að við undirbúning hátíðarinnar hafi komið í ljós að fólk frá 21 þjóð, að Íslendingum meðtöldum, búi á Vopnafirði en erlendum íbúum þar hefur fjölgað stöðugt undanfarin ár.
Af þeim voru þrettán þjóðir með kynningar á menningu sinni á deginum. Má þar nefna þjóðbúninga frá Tælandi og Póllandi, mat frá Ungverjalandi, Svartfjallalandi, Póllandi, Búlgaríu og Danmörku auk þess sem leikskólabörn á Vopnafirði sungu lagið sem Íslendingar þekkja sem Meistara Jakob á pólsku.
Einnig voru sýnd myndbönd og farið með kynningar á sviði. Meðal annars kom fram að í Svartfjallalandi er gata nefnd eftir Íslendingum sem voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði landsins.
Vopnfirðingar þáðu boðið með þökkum og segir Þórhildur að fjölmennt hafi verið í félagsheimilinu á laugardaginn. „Það var rosalega vel mætt, við sem stóðum fyrir þessum degi erum enn í skýjunum.“
Þórhildur segir að dagurinn sé þó aðeins upphafið á frekari stuðningi við þá íbúa Vopnafjarðar sem séu af erlendu bergi brotnir. Í framhaldinu standi til að koma upp hópi meðal erlendra íbúa á Vopnafirði þar sem þeir geta hist og borið saman bækur sínar, meðal annars nýtt tækifærið til að æfa sig í íslensku.
„Við viljum búa til fjölbreytilegt samfélag og erum meðvituð um að halda þarf vel utan um þennan hóp til að bæta samfélagið,“ segir Þórhildur.
Myndir: Þórhildur Sigurðardóttir