Orkumálinn 2024

Fjör á Vopnafirði yfir helgina

Vopnaskak, árleg bæjarhátíð Vopnfirðinga, hófst nú í dag og stendur fram á sunnudag. Boðið er upp á fjölbreytta og fjölskylduvæna dagskrá þar sem áhersla er lögð á að allir geti skemmt sér vel og lyft sér upp eftir erfiða tíð að undanförnu.

Sigurður Vopni Vatnsdal er verkefnastjóri Vopnaskaks í ár og hann er spenntur fyrir dagskránni sem hefst í dag, meðal annars með boccia-keppni. „Reynsluboltar sveitarfélagsins í boccia eru að fara að keppa við meistaraflokk Einherja í knattspyrnu. Það er gríðarlega spenna í loftinu hér í Miklagarði og við í meistaraflokknum höfum eiginlega ekkert verið að æfa fótbolta síðustu vikur, bara boccia,“ segir Sigurður léttur en hann leikur knattspyrnu með liðinu.

Að auki eru á dagskránni listviðburðir og ýmsir aðrir viðburðir fyrir alla fjölskylduna sem dreifast yfir helgina, svo sem spurningakeppni Einherja (pub quiz), Bustarfellsdagurinn, furðufatahlaup, sápurennibraut og fleira. Sigurður segir að Vopnfirðingum hafi þótt mikilvægt að reyna að gera eitthvað til að lyfta sér upp, en þó standi til að virða allar reglur og takmarkanir sem sóttvarnayfirvöld segja fyrir um.

Mikilvægt að rífa sig upp

„Okkur fannst mjög mikilvægt, af því þetta hafa verið dálítið þungir tímar, að það yrði eitthvað gert fyrir bæjarbúa. Það verður líka að vera tími fyrir fólk að skemmta sér og gera það besta úr stöðunni. Við töldum nauðsynlegt að rífa okkur aðeins upp úr þessu og gera eitthvað skemmtilegt í bænum. En við munum fara að öllum reglum. Til dæmis verður á kvöldvökunni sérstakt rými þar sem þeir geta verið sem vilja halda tveimur metrum og síðan verður að sjálfsögðu spritt úti um allt, eins og er allsstaðar orðið núna.“

Kvöldvakan verður einn af aðalviðburðum hátíðarinnar en þar mun skemmtikrafturinn Jón Gnarr segja sögur af ýmsu sem fyrir hann hefur borið um ævina. „Ég hef heyrt hann segja tvær af þessum sögum sem verða fluttar þarna og þær eru sprenghlægilegar, ég get lofað því. Síðan verður ball með Magna og Matta Matt á laugardag, frá átta til ellefu eins og yfirvöld leyfa, en Vopnfirðingar eru bara mjög spenntir fyrir því.“

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna með því að smella hér, en henni lýkur formlega kl. 18 á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.