Flest söfn opna í júní
Söfn voru meðal þeirra sem fengu að opna dyr sínar fyrir almenningi á ný þegar slakað var á samkomubanni þann 4. maí. Covid-19 faraldurinn hefur haft þau áhrif að flest söfn á Austurlandi hafa seinkað sumaropnun sinni og þau sem nú eru opin eru mörg með skemmri opnunartíma en í venjulegu ári.Safnið Frakkar á Íslandsmiðum á Fáskrúðsfirði opnaði klukkan tíu í morgun. Það verður opið til sex í dag og verður það til 30. September.
Önnur söfn Fjarðabyggðar, það er Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði, Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði og Safnahúsið í Neskaupstað opna 1. júní og verða opin til 31. ágúst.
Tvær sýningar opna á Klaustri á morgun
Skriðuklaustur hefur sumaropnun sína á morgun með tveimur sýningum. Annars vegar verður það sýningin Handalögmál frá Handverki og hönnum með verkum eftir Þórdísi Jónsdóttur, Philippe Ricart og Ýr Jóhannsdóttur. Hins vegar verður ljósmyndasýningin Norðaustur landslag eftir Úlfar Trausta Þórðarson í gallerí Klaustur. Skriðuklaustur verður opið alla daga frá 11-17 til 16. júní.
Snæfellsstofa opnaði þann 4. maí og er opin virka daga í maí frá 10-15. Frá morgundeginum verður opið um helgar frá 12-17. Óbyggðasetur Íslands í Fljótsdal opnar 1. júní og verður opið til 15. september frá klukkan 11-17.
Gestalistamenn sýna í Skaftfelli
Í Skaftfelli á Seyðisfirði eru í gangi tvær sýningar. Á efri hæðinni eru myndir eftir Bjargey Ólafsdóttur sem hún vann í gestadvöl á staðnum árið 2008. Á Vesturveggnum eru verk eftir hina skosku Kirsty Palmer. Báðar hafa að undanförnu dvalið í gestavinnustofum Skaftfells.
Skaftfell er opið til 30. maí á opnunartíma bistrósins sem er frá 12-13 og 18-20 virka daga og 18-20 um helgar. Þá er opið fyrir hópa eftir bókunum. Opnunartími sumarsins verður auglýstur síðar.
Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði opnar 1. júní. Þar er kominn til starfa nýr forstöðumaður, Zuahitz Akizu.
Steinasöfn opin
Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum er opið milli klukkan 11-16 frá þriðjudegi til föstudags. Sumaropnunartími tekur gildi 1. júní en þá verður safnið opið alla daga frá 10-18. Hægt er að heimsækja safnið utan hefðbundins opnunartíma með að hafa samband.
Steinasöfn Auðuns og Jóns Friðriks á Djúpavogi eru opin frá 10-18 alla daga. Sami opnunartími er einnig í náttúrulistagalleríi Freevilli þar sem í gangi er sýningin Frá fjöru til fjalls. Ríkharðssafn í Löngubúð opnar 17. júní en Nönnusafn í Berufirði verður ekki opnað í sumar
Breiðdalssetur opnar 10. júní og verður opið alla daga til loka ágúst milli klukkan 12 og 16, nema sunnudaga.
Norðurljósahús Íslands á Fáskrúðsfirði er opið fyrir hópa sem hafa samband. Steinasafn Petru, eitt fjölsóttasta safn svæðisins, er lokað til 1. júní.