Aprílgabb: Fljótsdælingar efna til páskaeggjaleitar
Ferðaþjónustuaðilar í Fljótsdal og Ungmennafélagið Þristur, með stuðningi Fljótsdalshrepps, hafa tekið saman höndum um að efna til páskaeggjaleitar í dag. Vítt er til veggja í dalnum og þannig er tryggt að reglum um samskiptafjarlægð verði virtar.„Í Fljótsdal eru 86 íbúar skráðir með heimilisfesti á rúmlega 1500 ferkílómetra svæði. Vissulega er hluti þess hálendi sem er óaðgengilegt á þessum tíma, en það er engu að síður nægt láglendi eftir til að hægt verði að virða öll fjarlægðarmörk,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, staðarhaldari á Skriðuklaustri og talsmaður verkefnisins.
„Við höfum verið í samskiptum við yfirvöld og förum eftir öllum reglum. Við höfum fengið Dyravarðaþjónustu Austurlands til að setja verði á brýrnar yfir Gilsá að austanverðu og Hrafnsgerðisá að norðanverðu, þar sem fólk kemur inn í sveitina. Þeir munu síðan úthluta fólki svæðum til að leita að eggjum á og tryggja að ekki verði of margir á sama svæðinu.“
Páskaeggjaleitin er hluti af aðgerðum Fljótsdalshrepps til að tryggja viðspyrnu efnahagslífs á tímum covid-19 veirunnar. Sveitarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum framlag til ferðaþjónustufyrirtækja til markaðsátaks og er þetta fyrsta aðgerðin í því.
„Við vonumst til að fólk eigi fallegan dag í hreppnum og komi hingað aftur í heimsókn í sumar þegar ferðaþjónustuaðilar verða búnir að opna sína staði. Svo væri ekki verra ef einhverjir kysu að flytja í sveitina, það er alltaf verið að leita að nýjum íbúum,“ segir Skúli.
Fljótsdalshreppur er meðal þeirra sveitarfélaga sem gætu verið neydd til sameiningar ef ný lög, sem Alþingi hefur til meðferðar, um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga verða samþykkt. „Þetta átak sem við stöndum fyrir sýnir að lítil sveitarfélög eru jafnvel betur í stakk búin til að bregðast við snöggt og á skapandi hátt en þau stóru,“ bendir Skúli Björn á.
Félagar úr Ungmennafélaginu Þristi voru fengnir til að fela um 1000 páskaegg nr. 4 frá Nóa Síríusi vítt og breitt um sveitina í gær. „Þetta er búin að vera gríðarlega hressandi útivera. Það blés reyndar duglega á okkur í gær, sem er afar sjaldgæft í Fljótsdalnum.
Mér skilst að það geri það líka í dag - en það fjölgar bara kaloríunum sem maður brennir við leitina,“ segir Hildur Bergsdóttir, stjórnarmaður ungmennafélagsins sem hvetur Austfirðinga til að drífa sig í dalinn áður en eggin fjúki eða bráðni í sólskininu.
Hátt er til lofts og vítt til veggja í Fljótsdalnum eins og sagt er og rúmt um fólk.