„Fólk vill fá öryggisventil á Bessastaði“

Guðmundur Franklín Jónsson, forsetaframbjóðandi, er þessa dagana á ferð um Austurlandi að heilsa upp á íbúa. Hann segist heyra það á fólki að ferðaþjónustan á svæðinu hafi orðið útundan í aðgerðum til hjálpar greininni. Guðmundur kveðst vilja beita málsskotsrétti forseta í þeim tilfellum sem gjá myndast milli þings og þjóðar.

„Við heimsækjum alla staði. Við byrjuðum á Djúpavogi á sunnudag og þræðum okkur norður eftir. Við fórum á Mjóafjörð í gær og út á Dalatanga, sem var mjög gaman. Við vorum á Egilsstöðum seinni partinn í gær og í morgun, stefnum á Borgarfjörð eystra á eftir og ætlum til Vopnafjarðar á morgun,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hefur nýtt ferðina til að ræða við kjósendur og stuðningsmenn ásamt því að taka púlsinn á atvinnulífinu eystra.

„Ég heyri á fólki hér að því finnst landsbyggðin útundan í ferðaþjónustunni. Það var blásið upp að síðasta helgi hefði verði svo mikil ferða helgi en það sást ekki hér eystra. Hótelin og veitingastaðirnir eru tómur og það þarf virkilega að skoða hvað hægt er að gera til að aðstoða fyrirtækin hér. Þetta eru oft lítil fjölskyldufyrirtæki sem erfiðra að nýta sér úrræðin en þau stærri fyrir sunnan.“

Guðmundur segir fleiri mál brenna á Austfirðingum. „Flestir, ef ekki allir, eru á móti orkupakka 3 og hafa miklar áhyggjur af pökkum 4 og 5. Flestir vilja ekki fara í Evrópusambandið og margir hneykslaðir yfir því hvernig komið er í Landsréttarmálinu.“

Vill nýta málskotsréttinn

Mótframbjóðandi Guðmundar er Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti. „Það eru allir mjög hneykslaðir á þessu máli sem hann byrjaði á með uppreist æru, hans fyrsta embættisverk. Nú er fólk að rifja upp hans verk. Hann sagðist ætla að hafa fjögur ár af því sama og fólki lýst ekkert á það.

Fólk vill fá öryggisventil á Bessastaði, mann sem er talsmaður þjóðarinnar. Forsetinn er þjóðkjörin og á ekki að vera handbendi elítunnar í Reykjavík til að koma í gegn málum sem henni eru þægileg á þingi því forsetinn og Alþingi fara saman með löggjafarvaldið.

Mér finnst vanta öryggisventil á Bessastaði. Það þarf að vernda málskotsréttinn og nota hann í málum sem kljúfa þjóðina í tvennt og virkilega stór gjá myndast milli þings og þjóðar. Það fer ekki á milli mála hvenær það gerist.

Ég er ekki að tala um að nota hann í hverju máli en ég vil til dæmis nota hann þegar selja á Landsvirkjun – það skiptir ykkur hér máli að það eignist ekki einhver gammur Kárahnjúkavirkjun – við sölu bankanna og orkupakka 4 og 5. Þetta eru mál sem hvíla á manni og ég er ansi hræddur um að núverandi forseti muni ekki stoppa.“

Guðmundur Franklín segist ekki vera Austfirðingur að ættum, móðurættin sé úr Fljótshlíðinni og föðurættin úr Önundarfirði. Mágur minn, Benedikt Jóhannesson, er Austfirðingur og ég á góða vini á ýmsum stöðum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina.

Segist hafa verið að hjálpa lífeyrissjóðnum

Guðmundur kom hins vegar við sögu hjá Lífeyrissjóði Austurlands, áður en hann sameinaðist Lífeyrissjóði Norðurlands undir merkjum Stapa. Árið 1999 varð Guðmundur stærsti hluthafinn og stjórnarmaður í verðbréfafyrirtæki sem hét Handsal ehf., síðar Burnham International á Íslandi.

Lífeyrissjóður Austurlands var meðal stofnanda Handsals árið 1991. Rekstur þess hafði verði þungur áður fyrir eigendaskiptin. Guðmundur Franklín keypti Handsal og fékk til þess 87 milljónir króna á þáverandi gengi, ígildi 225 milljóna, að láni frá sjóðnum með skuldabréfum.

Viðsnúningur varð á rekstri félagsins fyrst, það taldi fram 85 milljóna hagnað fyrri hluta ársins 2000, en hratt hallaði undanfæti og varð gjaldþrota í lok árs 2001. Lífeyrissjóður Austurlands gjaldfelldi kröfuna í kjölfarið. Svo fór að árið 2003 gerði sjóðurinn fjárnám upp á 143 milljónir í búi Guðmundar Franklín, sem staðfest var í héraðsdómi Reykjavíkur.

„Lífeyrissjóður Austurlands átti Handsal ásamt fleiri sjóðum. Ég keypti það af sjóðnum. Ég hjálpaði Lífeyrissjóði Austurlands að losna við þetta félag. Það sem var í félaginu tilheyri Lífeyrissjóði Austurlands frá fyrri tíð. Lífeyrissjóður Austurlands kom alltaf vel út úr öllum viðskiptum við mig persónulega. Þau samskipti sem ég hafði við það heiðursfólk sem sat í stjórninni voru góð. Ég var að hjálpa sjóðnum. Menn eru hins vegar að klína þessu á mig af ýmsum ástæðum,“ sagði Guðmundur þegar Austurfrétt spurði hann út í málið í dag.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2003 um fjárnámið segir að fullyrðing Guðmundar um að ljóst væri að veð í hlutabréfum Handsals fyrir láninu hefðu frá upphafi verið einskis virði stangist á við þá miklu skuldbindingu sem hann tókst á við.

Guðmundur hafði fyrir þetta starfað sem verðbréfasali í Bandaríkjunum en snéri sér í kjölfarið að hótelrekstri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.